Rólegt hefur verið síðan óróapúlsinn mældist

Magnús Tumi Guðmundsson, prófessor í jarðeðlisfræði, segir að tiltölulega rólegt hafi verið á Reykjanesskaganum síðan óróapúls mældist upp úr klukkan tvö í dag. Hann segir skiljanlegt að fólk sé í viðbragðsstöðu en að fólk verði að flýta sér hægt.

Á mynd sem sjá má á vef Veðurstofunnar sést hvernig óróapúlsinn mælist á milli klukkan 14 og 15 í dag en hættir síðan og mælist ekki aftur, að minnsta kosti ekki þegar þessi frétt er skrifuð.

Magnús Tumi Guðmundsson.
Magnús Tumi Guðmundsson. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Nú eiga allir að fara heim að hvíla sig og fá sér að borða og horfa á góða mynd. Það þýðir ekki að sitja bara yfir mælunum og sofna svo rétt áður en eitthvað gerist,“ segir Magnús við mbl.is en bætir þó við að auðvitað sé eðlilegt að fólk sé í viðbragðsstöðu.

„Það verður að hafa þann möguleika inni í myndinni að það fari að gjósa. Við erum að tala saman hérna upp úr klukkan sjö og staðan getur verið allt önnur eftir bara smástund.“

Hér má sjá graf sem sýnir óróapúlsinn sem mældist í …
Hér má sjá graf sem sýnir óróapúlsinn sem mældist í dag. Á milli klukkan 14 og 15:30 greinast margir litlir skjálftar, sem er merki um einhvern óróa. Því neðar sem farið er á myndina því nær í tíma er maður og það er greinilegt að nokkuð stöðugt ástand hefur verið síðan að óróapúlsinn fjaraði út. Graf/Veðurstofa Íslands

Óróapúlsinn fjaraði út

Magnús segir að á myndinni hér að ofan sjáist hvernig óróapúls mælist á mælum Veðurstofunnar í Krýsuvík en deyi síðan út nokkrum stundarfjórðungum síðar. Hann segir einnig að hugtakið gosórói sé ofnotað og að gosórói verði ekki fyrr en gos hefjist.

„Það var rætt í vísindaráði að þessi órói, sem nú finnst, líkist því þegar kvika hreyfist á nokkurra kílómetra dýpi. Þessi órói passar við það að kvika hafi verið á ferð en sé ekki alveg við yfirborðið.“

En hvað er þá óróapúls?

„Þá koma tíðir jarðskjálftar, ekki stórir. Og hugtakið órói er hugtak yfir samfelldan titring á mælum sem er lengri en venjulegur jarðskjálfti. Það getur verið erfitt að greina óróa þótt það sé auðvelt að sjá hann. Hann sést vel á mælum en það er erfitt að segja til um hvað hann er að gera.“

Aðspurður hvort spár manna um gos innan næstu klukkustunda rætist er svar Magnúsar einfalt en loðið:

„Það verður bara að koma í ljós.“

mbl.is