Allir á tánum á Veðurstofunni

Bjarki Kaldalóns Friis, jarðfræðingur á Veðurstofunni.
Bjarki Kaldalóns Friis, jarðfræðingur á Veðurstofunni. mbl.is/Sigurður Bogi

Grannt er fylgst með jarðhræringum á Reykjanesi á næturvakt Veðurstofunnar. Auk eins veðurfræðings eru tveir á skjálftavakt. Sólarhringsmönnun hefur verið á skjálftavaktinni frá því skjálftahrina hófst á Reykjanesi fyrir viku.

Að sögn Bjarka Kaldalóns Friis náttúruvársérfræðings hefur staðan á Reykjanesi lítið breyst síðustu klukkustundir. „Það er áframhaldandi jarðskjálftavirkni á svæðinu suðvestur af Keili. Óróinn er enn til staðar og hefur ekki breyst mikið frá því í kvöld.“

Skjálfti 4,1 að stærð reið yfir um klukkan 00:59 í nótt, sá stærsti síðastliðinn sólarhring en þó litlu stærri en annar sem var á fjórða tímanum í dag.

Nýjar gervihnattamyndir af skjálftasvæðinu bárust í nótt, en eftir á að vinna úr þeim. Þá eru myndirnar bornar saman við fyrri myndir til að sjá þenslu jarðskorpunnar og fá vísbendingar um kvikumagn auk þess sem landris sést á myndunum. Í fyrramálið ætti yfirferðinni að ljúka.

Keilir í kvöldsólinni.
Keilir í kvöldsólinni. Ljósmynd/Bedalíus

Hafa ekki undan að yfirfara skjálfta

Meðal helstu verkefna næturvaktarinnar hjá Veðurstofunni er að yfirfara handvirkt þá skjálfta sem ríða yfir, greina stærð og staðsetningu. Óvinnandi vegur er þó að fara yfir þá alla enda skipta skjálftarnir þúsundum á hverjum sólarhring um þessar mundir. Þegar blaðamaður náði tali af Bjarka skömmu fyrir klukkan tvö í nótt voru skjálftarnir orðnir 215 frá miðnætti. 

„Við náum auðvitað ekki yfir þetta allt saman. En ef maður er mjög duglegur getur maður náð 100-200 skjálftum á dag,“ segir hann. Því til viðbótar þarf að senda út tilkynningar, taka við símtölum frá almenningi og auðvitað svara fjölmiðlamönnum. „Þegar það er eitthvað mikið að gerast þá hringir almenningur mikið og sendir inn fyrirspurnir, en núna þegar þessi atburður er búinn að vera í gangi í yfir viku þá eru þau ekki mikið að senda tilkynningar eða hringja inn lengur,“ segir Bjarki.

Ef gos hefst er aðeins einn á formlegri bakvakt, en Bjarki segist þó viss um að starfsfólk muni hrúgast inn ef til þess kemur. Því mætti segja að allir væru á óformlegri bakvakt.

Þá fer enda mikið ferli af stað. Breyta þarf litakóða fyrir flug yfir á rautt, senda út fréttatilkynningar og skrifa á vefinn. „Þess vegna eru þau sem eru ekki á vakt löngu farin heim að hvíla sig þannig að þau verði tilbúin ef eitthvað gerist. Það verða vonandi einhverjir sem eru úthvíldir,“ segir Bjarki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert