Einn greinst með suðurafríska afbrigðið

Alma Möller landlæknir og Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir á upplýsingarfundi dagsins.
Alma Möller landlæknir og Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir á upplýsingarfundi dagsins. Ljósmynd/Almannavarnir

Einn hefur greinst með afbrigði Covid-19 sem kennt er við Suður-Afríku hér á landi. Það var fyrir fjórum dögum eins og kom fram í máli Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis á reglulegum upplýsingafundi Almannavarna í dag. Hann sagði enga útbreiðslu hafa fylgt í kjölfarið. 

Enginn hefur greinst með hið brasilíska afbrigði Covid-19.

90 hafa greinst með afbrigði veirunnar sem kennt er við Bretland, þar af um 20 innanlands. Þórólfur sagði það aðallega vera fjölskyldumeðlimi eða einhverja sem tengjast nánum böndum þeim sem greinast og ekki um neina frekari dreifingu að ræða.

Þórólfur sagði fjölgun þeirra sem greinast með breska afbrigðið og þá staðreynd að hér hafi suðurafríska afbrigðið greinst ástæðu til að gæta okkar sérstaklega vel með áframhaldandi varkárni og einstaklingsbundnum sóttvörum.

Síðastliðinn sólarhring greindist enginn með Covid-19 í landamæraskimun. 180 sýni voru tekin í bæði fyrstu og annarri sýnatöku. 

Frá 19. febrúar, þegar breyttar kröfur við landamæri Íslands tóku gildi, hafa 19 greinst með Covid-19 á landamærunum, þar af 11 með virkt smit.

Fjölgun smita í nágrannalöndum áhyggjuefni 

Fram kom í máli Ölmu Möller landlæknis að aukin tíðni smita í nágrannalöndum okkar, þar sem hræðst er að ný bylgja sé að hefjast, sé talin eiga skýringu í nýjum afbrigðum veirunnar.

„Því er mikilvægt að við gleymum okkur ekki í velgengninni hér. Höldum áfram með aðgerðir á landamærum sem lágmarka hættu á að smit berist inn í landið en höfum líka þann varnagla áfram að sinna einstaklingsbundnum sóttvörum,“ sagði Alma Möller.

mbl.is