Eldgos við Keili gæti valdið keðjuverkun

Páll Einarsson jarðeðlisfræðingur á skjálftasvæðinu fyrr í dag.
Páll Einarsson jarðeðlisfræðingur á skjálftasvæðinu fyrr í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Eldgos við Keili gæti komið af stað kvikuinnskotum á öðrum sprungusveimum á Reykjanesskaga. Þetta segir Páll Einarsson jarðeðlisfræðingur, en hann var gestur Kastljóssins á RÚV í kvöld.

Reykjanesskagi er eitt virkt svæði og eldvirknin tengist milli eldstöðvakerfa. Ítrekuð kvikuinnskot hafi orðið í þessum kerfum síðasta árið, frá því jarðhræringar hófust á Reykjanesi, án þess að þau hafi valdið tjóni. Kvika hafi þannig komið inn á svæðum við Fagradalsfjall, Svartsengi og Krýsuvík. „Það eina sem er eftir er Brennisteinsfjallasvæðið. Það er enn stikkfrí, en það er bara tímaspursmál hvenær það er virkjað líka,“ sagði Páll.

Páll Einarsson í Kastljósi í kvöld. Á skjánum má sjá …
Páll Einarsson í Kastljósi í kvöld. Á skjánum má sjá eldstöðvakerfin á Reykjanesi. Skjáskot/RÚV

Sprungur gætu valdið tjóni í úthverfum borgarinnar

Páll sagði að ef eldgos hæfist við Keili væri ekki hægt að útiloka kvikuinnskot á öðrum stöðum á Reykjanesskaganum sem gæti opnað sprungur ofanjarðar án þess að eldgos yrði þó á þeim stöðum. Tjón gæti þá orðið á innviðum á borð við vegi, rafmagns- og fjarskiptalínur og vatnsæðar.

Páll telur sprunguhreyfingar sennilega það alvarlegasta sem geti gerst. Benti hann á að Krýsuvíkurkerfið næði alla leið inn í úthverfi höfuðborgarsvæðisins og sprungur samhliða kvikuinnskotum gætu haft í för með sér tjón á innviðum. Því væri Krýsuvíkurkerfið undir sérstöku eftirliti.

Þá benti hann á að í gær hefði orðið vart við skjálfta við á svæði við Trölladyngju. „Þá erum við komin óþægilega nálægt Krýsuvíkursvæðinu,“ sagði Páll og bætti við að ein af þeim sviðsmyndum sem þyrfti að taka með í reikninginn væri að Krýsuvíkursvæðið tæki við sér.

mbl.is

Bloggað um fréttina