Félagsstarfið er að komast í gang

Lífið á hjúkrunarheimilum landsins er smám saman að færast í eðlilegra horf. Á sumum heimilum hefur verið aflétt skiptingu heimila í sóttvarnahólf en á öðrum takmarkar slík hólfun félagsstarf og önnur samskipti innan heimila. Von er á að leiðbeiningar um rýmkaðar heimildir til heimsókna verði gefnar út eftir um það bil hálfan mánuð, þegar ákveðinn tími er liðinn frá því bólusetningum starfsmanna lýkur.

Unnið hefur verið að bólusetningum starfsmanna og lýkur fyrri bólusetningu almennt á morgun. Búist er við að tíu til tólf dögum eftir það verði tilkynnt um frekari tilslakanir á varúðarráðstöfunum vegna sóttvarna. Fyrir nokkru lauk bólusetningum heimilisfólks en enn eru að flytja inn nýir óbólusettir heimilismenn.

Lifnar yfir starfinu

Gísli Páll Pálsson, forstjóri Grundarheimilanna, segir að félagsstarf og afþreying fyrir heimilisfólk hafi verið að aukast en á Grund séu enn sóttvarnahólf og takmarki það slíkt starf nokkuð.

Öll hólfun á Hrafnistuheimilunum hefur verið afnumin. „Félagsstarfið er allt að hrökkva í gang og lifna yfir á heimilunum. Meðal annars er komið með söngskemmtanir,“ segir María Fjóla Harðardóttir, forstjóri Hrafnistuheimilanna.

Þegar sóttvarnahólf eru afnumin getur starfsfólkið hætt að nota andlitsgrímur og það liðkar strax fyrir samskiptum við heimilisfólk.

Enn eru takmarkanir á heimsóknum til heimilisfólks hjúkrunarheimila. Þannig mega koma tveir í heimsókn á dag. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert