„Gætum átt von á eld- og hraunvegg“

Norska dagblaðið VG ræðir við Hafliða Hafliðason jarðfræðiprófessor og hinn …
Norska dagblaðið VG ræðir við Hafliða Hafliðason jarðfræðiprófessor og hinn norska Børge Johannes Wigum, jarðfræðing og fyrrverandi prófessor, sem búið hefur í Reykjavík í 30 ár. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við gætum átt von á margra kílómetra löngum eld- og hraunvegg sem teygir sig mörg hundruð metra í loft upp,“ hefur norska dagblaðið VG eftir Hafliða Hafliðasyni, jarðfræðiprófessor við Háskólann í Bergen, í grein um jarðhræringar á Íslandi sem blaðið birtir á vefsíðu sinni í dag.

Hefur blaðið eftir Hafliða að gosið, verði af því, gæti orðið „ferðamannagos“, eða turistutbrudd á norsku, og kveðst hann harma að á 50 ára ferli sínum sem jarðvísindamaður hafi hann aldrei verið staddur á vettvangi eldgoss, ávallt verið á röngum stað á röngum tíma. „Það er sorglegt,“ hefur VG eftir Hafliða sem mun heldur ekki sjá hugsanlegt gos á Reykjanesskaga í návígi þar sem hann er á leið í ferðalag með nemendum sínum í Noregi.

Norskir fjölmiðlar fylgjast grannt með atburðarásinni hjá frændþjóðinni og ræða …
Norskir fjölmiðlar fylgjast grannt með atburðarásinni hjá frændþjóðinni og ræða við lærða sem leika um skjálftavirknina og hugsanlegt eldgos. Skjáskot/Vefsíða NRK

Blaðamaður VG rifjar því næst upp gosið í Eyjafjallajökli vorið 2010 og áhrif þess á flugsamgöngur í Norður-Evrópu. Hugtakið „askefast“ eða öskuteppt(ur) hafi þá orðið áberandi í umræðunni og haft um þá sem ekki komust milli staða vegna aflýstra flugferða.

„Það er mest spennandi að upplifa eitthvað sem hefur ekki gerst í 800 ár,“ segir norski jarðfræðingurinn Børge Johannes Wigum við VG, en Wigum og fjölskylda hans hafa búið í Reykjavík í 30 ár. Vísar Norðmaðurinn þar til þess að ekki hafi gosið á Reykjanesi síðan á dögum Snorra Sturlusonar á 13. öld.

Wigum, sem áður gegndi prófessorsstöðu við NTNU, Vísinda- og tækniháskólann í Þrándheimi, segist hafa fundið vel fyrir sumum þeirra tæplega 20.000 skjálfta sem orðið hafa síðustu daga á suðvesturhorninu. „Við heyrum háværar drunur og finnum titring í nokkrar sekúndur. Mörgum þykir orðið hvimleitt að vakna við þetta á hverri nóttu,“ segir hann frá.

Børge Johannes Wigum á vettvangi gossins í Holuhrauni árið 2014.
Børge Johannes Wigum á vettvangi gossins í Holuhrauni árið 2014. Ljósmynd/Úr einkasafni

Prófessorinn fyrrverandi segir hárnákvæmar gervihnattamyndir sýna um 30 sentimetra landris á skjálftasvæðinu sem sé merki um að ólgandi hraunkvika þrýsti á yfirborðið. „Þetta verður ekki skýrt með skjálftunum einum,“ segir hann og bætir því við að gos sé vel mögulegt.

Segir VG frá því að íslenskir fjölmiðlar haldi úti beinum útsendingum allan sólarhringinn, en engir sérfræðingar geti þó spáð með vissu um hverjar málalyktir verða.

„Þetta yrði gos í rólegri kantinum, en við getum þó átt von á hraunstrókum hátt í loft upp. Þegar þunnfljótandi hraunið fellur til jarðar á ný flýtur það eins og glóandi árstraumur sem er 1.100 til 1.200 gráða heitur,“ segir norski jarðfræðingurinn. Erfitt sé að spá um hvert raunið renni verði af gosi. „Í versta falli geta vegir eyðilagst og fólk fundið fyrir óþægilegri gasmengun.“

Norskir miðlar greina frá þúsundum jarðskjálfta á Íslandi síðustu daga …
Norskir miðlar greina frá þúsundum jarðskjálfta á Íslandi síðustu daga og segja Íslendinga nú búa sig undir hugsanlegt eldgos. Skjáskot/Vefsíða Nettavisen

Að lokum kveður hann ólíklegt að nokkur verði öskutepptur í þetta sinnið. „Hraunstraumurinn á Reykjanesi yrði basískur og þunnfljótandi og lítillar ösku að vænta,“ er lokaspádómur norska jarðfræðingsins um þróun mála á Reykjanesskaga.

Grein VG

NRK

ABC Nyheter

Nettavisen

mbl.is