Möguleg gossvæði orðin fjögur

Nýjasta hraunflæðispá vísindamanna við Háskólann.
Nýjasta hraunflæðispá vísindamanna við Háskólann. Kort/HÍ

Ný hraunflæðispá vísindamanna við Háskóla Íslands gerir ráð fyrir fjórum hugsanlegum svæðum þar sem eldur gæti komið upp. Eitt þeirra er Sýlingafell, rétt norðan Grindavíkur, en hin þrjú eru Móhálsadalur, Fagradalsfjallssvæðið og Hauksvörðugjá.

Frá því síðasta spá vísindamannanna var gerð hefur skjálftavirknin dreift úr sér og fyrir vikið eru fleiri svæði talin möguleg sem eldsupptök en í fyrri spám.

Tekið er sérstaklega fram að engir möguleikar eru á því að til eldgoss komi á öllum svæðum í einu. Þóra Björg Andrésdóttir jarðfræðingur segir í samtali við mbl.is að skjálftavirkni hafi síðastliðinn sólarhring færst til suðvesturs og þar með nær Grindavík. Þóra segir að líkanið taki mið af fyrri gosum á Reykjanesi en einnig þeim skjálftum sem orðið hafa síðustu daga.

„Miðað við að skjálftavirknin sé að færast til suðvesturs þá gæti það orðið möguleiki að gjósi rétt við bæinn. Rétt utan við Grindavík eru fornir gígar, næstum því inni í bænum,“ segir Þóra. Sjálf kemur Þóra ekki að gerð líkansins, en hún hefur áður unnið að hættumati á Reykjanesi.

mbl.is

Bloggað um fréttina