Nýlegar sprungur eru á svæðinu

Óróinn og virknin á skjálftasvæðinu hefur dvínað.
Óróinn og virknin á skjálftasvæðinu hefur dvínað. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Nýlegar sprungur eru á svæðinu við Litla Hrút, Fagradalsfjall og Sandfell, aðallega suðvestan við Keili. Ekki er hægt að segja til um hvort þær mynduðust í gær eða eftir stóra jarðskjálftann sem varð í síðustu viku.

Náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands segist ekki vita hversu stórar sprungurnar eru. 

Dvínandi jarðskjálftavirkni 

Óróinn og virknin á skjálftasvæðinu á Reykjanesskaga hefur dvínað aðeins eftir að hafa færst í aukana á sjötta tímanum í morgun. Enn er talsverð skjálftavirkni á svæðinu en ekki eins mikil og um hálfþrjúleytið í gær.

Að sögn náttúruvársérfræðingsins kemur þetta í bylgjum. Þegar átt er við að óróinn og virknin hafi dvínað er átt við þéttleika skjálftanna. Þar af leiðandi er óróapúlsinn ekki eins áberandi og í gær.

Spurður hvaða þýðingu þetta hefur segir sérfræðingurinn ekkert hægt að lesa úr stöðunni eins og hún er núna. Hlutirnir verði að koma betur í ljós.

Björgunarsveitarfólk í nágrenni Keilis í gær.
Björgunarsveitarfólk í nágrenni Keilis í gær. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ekki séð gervihnattarmyndir

Flogið var yfir svæðið í þyrlu í gær og teknar myndir, auk þess sem starfsfólk var á staðnum áður en óróapúlsinn myndaðist. Fara þarf betur yfir þær upplýsingar sem fengust.

Spurður hvort starfsfólk Veðurstofunnar muni fara á svæðið í dag segir hann það fara eftir því hvernig hlutirnir þróast.

Gervihnattamyndir áttu einnig að berast núna í morgun sem eiga að hjálpa til við að meta stöðuna en náttúruvársérfræðingurinn hefur ekki séð þær enn þá.

Rögnvaldur Ólafsson.
Rögnvaldur Ólafsson. mbl.is/Kristinn Magnússon

Funda með Veðurstofunni 

Rögnvaldur Ólafsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá almannavörnum, segir að næstu skref verði að fá upplýsingar um hvernig nóttin var og funda svo með Veðurstofunni. Hann segir stöðuna óbreytta frá því sem var í gærkvöldi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert