Ummerki um óróapúlsinn lítt sjáanleg

Atburði gærdagsins er lokið,“ segir Elísabet Pálmadóttir, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands. Hún sat fund vísindaráðs Almannavarna nú síðdegis þar sem meðal annars var rýnt í gervitunglamynd sem tekin var í gær.

Elísabet segir að myndin, sem tekin var eftir óróapúlsinn við Keili um miðjan daginn í gær, sýni ekki mikla breytingu frá síðustu mynd sem tekin var fyrsta dag mánaðarins. 

„Myndirnar benda enn þá til þess að það sé berggangur með norðaustur/suðvestur stefnu og hugsanlega að við atburðinn í gær hafi ekki verið mikið af kviku á grynni á ferð,“ segir Elísabet.

Hún bendir á að ummerki um óróapúls gærdagsins hafi ekki verið mjög sjáanleg á nýju gervitunglamyndunum. Því geti ekki hafa verið mikið af kviku nálægt yfirborði jarðar.

Elísabet bendir á að órói gærdagsins sjáist ekki lengur, en við séum enn stödd í kröftugri jarðskjálftahrinu.

Skjálftahrinan virðist færast suðvestur, í átt að Fagradalsfjalli. Elísabet segir ekki að það þurfi að þýða neitt sérstakt annað en spennubreytingu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert