Beið eftir fari í stað þess að vera í sóttkví

Mynd úr safni frá Keflavíkurflugvelli.
Mynd úr safni frá Keflavíkurflugvelli. mbl.is/Björn Jóhann

Lögreglan á Suðurnesjum hafði í vikunni afskipti af karlmanni sem staddur var fyrir utan verslun í Njarðvík vegna gruns um brot á sóttvarnalögum. Kvaðst hann hafa verið að koma frá París og væri að bíða eftir fari til Reykjavíkur. Honum var gerð grein fyrir því að hann hefði átt að fara rakleiðis í sóttkví og gæti átt von á sekt fyrir brot á sóttvarnalögum. Lögregla sá jafnframt til þess að hann fylgdi þeim fyrirmælum að því er segir í tilkynningu frá lögreglustjóraembættinu. 

Ekið var á sex ára barn í umdæmi lögreglunnar á Suðurnesjum í vikunni. Var það á hlaupum yfir götu ásamt öðru barni þegar atvikið átti sér stað. Barnið var flutt til skoðunar á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja og reyndist það ekki hafa slasast alvarlega.

Fáeinir ökumenn voru kærðir fyrir of hraðan akstur í vikunni á Suðurnesjum. Tveir þeirra mældust á 130 km hraða á Reykjanesbraut þar sem hámarkshraði er 90 km. Hinir óku hægar.

Ökumaður sem lögregla tók úr umferð vegna gruns um akstur undir áhrifum fíkniefna var með ungt barn sitt í bifreiðinni. Sýnatökur á lögreglustöð staðfestu neyslu hans og var tilkynning send til barnaverndarnefndar.

mbl.is