Bólusettir Bretar velkomnir til Kýpur

Búið er að bóluseta yfir 80% landsmanna á níræðisaldri.
Búið er að bóluseta yfir 80% landsmanna á níræðisaldri. mbl.is/Kristinn Magnússon

Alls hefur 27.041 verið bólusettur á Íslandi og af þeim eru 12.709 búnir að fá báðar bólusetningar. Yfirvöld á Kýpur hafa ákveðið að bjóða Breta sem er búið að bólusetja við Covid-19 velkomna til eyjunnar eftir 1. maí. 

Þeir sem hafa lokið bólusetningu við Covid-19 eru ekki undanþegnir þeim sóttvarnareglum sem gilda í íslensku samfélagi meðan kórónuveirufaraldur geisar (fjöldatakmörkunum, grímuskyldu, ráðstöfunum á vinnustað).

Bólusetning dregur úr hættu á smiti en útilokar það ekki og ekki er enn vitað hvort bólusetning dregur úr smiti til annarra ef bólusettur einstaklingur veikist af Covid-19 að því er segir á vefnum covid.is.

Þeir sem hafa lokið bólusetningu gegn Covid-19 og hafa um það skírteini eru undanskildir kröfu um skimun og sóttkví á landamærum. Bólusetning kemur að svo stöddu ekki í veg fyrir sóttkví ef einstaklingi er skipað í sóttkví vegna umgengni við smitaðan einstakling.

Búið er að bólusetja yfir 80% íbúa landsins á níræðisaldri og tæplega 80% þeirra sem eru 90 ára og eldri.

Lyfjastofnun hafa borist 418 tilkynningar um mögulegar aukaverkanir við bólusetningu en af þeim eru 24 metnar alvarlegar, 18 vegna Pfizer, þrjár vegna Moderna og þrjár vegna AstraZeneca. 

Bretar sem eru búnir að fá báða bóluefnisskammtana mega ferðast …
Bretar sem eru búnir að fá báða bóluefnisskammtana mega ferðast til Kýpur í sumar. AFP

Yfirvöld á Kýpur ákváðu að bæta breskum bólusettum ferðamönnum í þann hóp sem má heimsækja eyjuna í kjölfar samnings sem Kýpur gerði við Ísrael í síðasta mánuði um að ferðamenn ríkjanna, sem eru bólusettir, megi fara á milli landanna. 

Kórónuveirufaraldurinn hefur leikið Kýpur grátt en í fyrra komu þangað tæplega 632 þúsund ferðamenn en árið 2019 voru þeir tæpar fjórar milljónir talsins. 

Eins og staðan er í dag mega Bretar ekki ferðast úr landi nema brýna nauðsyn beri til. Bretar eru fjölmennastir í hópi ferðamanna til Kýpur en árið 2019 var þriðjungur ferðamanna þangað Bretar. Ísraelar eru í þriðja sæti. 

Samkvæmt yfirvöldum á Kýpur miðast heimildin við að breskir ríkisborgarar, sem hafa fengið seinni bólusetningarskammtinn að minnsta kosti viku áður en lagt er upp í ferðalagið, megi koma til Kýpur. Þeir mega aftur á móti eiga von á því að vera sendir í sýnatöku á flugvellinum. Eins verða þeir að bera grímur á almannafæri og gæta að fjarlægðarmörkum. 

mbl.is