Hætta að upplýsa um smit um helgar

Ekkert smit hefur greinst á Íslandi í sex daga.
Ekkert smit hefur greinst á Íslandi í sex daga. Landspítalinn/Þorkell Þorkelsson

Almannavarnayfirvöld hyggjast láta af því að upplýsa um fjölda smita af Covid-19 um helgar, eins og hefur verið gert á síðustu misserum í gegnum viðtöl við fjölmiðla. 

Fyrr á þessu ári var hætt að birta tölurnar á covid.is og fjölmiðlar þurftu þá sérstaklega að hafa samband við upplýsingafulltrúa til að afla upplýsinga um smit um helgar. Nú er sá kostur ekki lengur inni í myndinni að sögn Hjördísar Guðmundsdóttur, upplýsingafulltrúa Almannavarna.

Hjördís segir að þegar ástandið sé orðið svona sé það orðið óþarfi að upplýsa um það yfir helgina að engin smit hafi orðið. Að sjálfsögðu segi Almannavarnir þó frá því um helgi ef einhverjar breytingar verða á stöðunni.

Þessi tíðindi hafa í för með sér að ekki fæst úr því skorið fyrr en eftir helgi hvort sá áfangi náist á morgun að sjö dagar líði án innanlandssmits hér á landi. Smitlaus vika hefur ekki náðst hér á landi síðan í júní á síðasta ári.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert