Ísland 5,77 – Svíþjóð 487,64

Staðan á Íslandi hvað varðar nýgengi smita er einstök í evrópskum samanburði en hér er nýgengi smita á hverja 100 þúsund íbúa 5,77 samkvæmt tölum Sóttvarnastofnunar Evrópu. Næsta ríki á eftir er Noregur með 83,66 ný smit á hverja 100 þúsund íbúa. Svíar eru með langflest smit af norrænu ríkjunum eða 487,64.

Samkvæmt Covid.is í gær var nýgengi smita síðustu tvær vikurnar innanlands 0,5 og 2,5 á landamærunum. Það eru tölur sem eru miðaðar við miðvikudag en tölur evrópsku sóttvarnastofnunarinnar miða við tölur frá því í síðustu viku. 

Tékkar bera höfuð og herðar yfir aðrar þjóðir á lista Sóttvarnastofnunar Evrópu með 1.395,10 ný smit á hverja 100 þúsund íbúa en tölurnar eru fyrir síðustu viku. Næst kemur Eistland með 1.038,47. 

Á Norðurlöndunum eru nýju smitin flest í Svíþjóð eins og áður sagði en Finnar hafa rokið upp listann og eru þau nú skráð 140,17. Til þess að stöðva þessa þróun hafa stjórnvöld þar í landi gripið til harðra sóttvarnareglna. Ekkert ríki á Norðurlöndunum býr við jafn vægar sóttvarnareglur og Ísland. Í Danmörku eru ný smit 118,38 á hverja 100 þúsund íbúa. 

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin varaði við því í gær að nýjum smitum væri farið að fjölga á ný í Evrópu eftir að hafa fækkað jafnt og þétt undanfarnar vikur.

Í Frakklandi er nýgengi smita 431,98, á Spáni 249,82 og Ítalía er með 341,01. Í Þýskalandi er nýgengi smita 129,96, Póllandi 316,86 og í Hollandi er nýgengi smita 346,23.

Kortavefur Sóttvarnastofnunar Evrópu

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert