Jón Þór Ólafsson vísar trúnaðarbresti á bug

Jón Þór Ólafsson þingmaður Pírata.
Jón Þór Ólafsson þingmaður Pírata. mbl.is/Eggert

Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata og formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis, vísar á bug gagnrýni um að í viðtali Ríkisútvarpsins við hann, eftir fund nefndarinnar með lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu, hafi falist trúnaðarbrestur. „Ég var mjög orðvar í kvöldfréttum RÚV og vitnaði ekki til orða þeirra sem komu fyrir nefndina. Ég sagði aðeins að fram hefðu komið nýjar upplýsingar sem gefa tilefni til þess að athuga þetta nánar,“ segir Jón Þór.

Hann minnir á að eftirlit Alþingis með ákvörðunum og verklagi ráðherra sé stjórnarskrárbundin skylda þess. Það sé því þvert á móti ámælisvert, að þingmaður Sjálfstæðisflokksins geri athugasemdir við slíka frumkvæðisrannsókn nefndarinnar. Hann telur að úr því sem komið sé kunni að fara best á því að umboðsmaður Alþingis tæki málið til sín.

Jón Þór segir að lögreglustjóri hafi með höndum mögulegt sóttvarnarbrot ráðherra sama flokks, og því þurfi að grennslast fyrir um símtölin. Í samtali við mbl.is þótti honum það ekki skipta máli að ætlað brot varðaði staðinn fremur en ráðherrann, en rannsóknin hefði hafist um leið og lögregluþjónar komu á vettvang.

Þrátt fyrir að Jón Þór segi orð sín varla geta talist trúnaðarbrest telur hann rétt að fá úr því skorið hvað megi og hvað megi ekki. „Ég hef engu að síður óskað eftir því að skrifstofa Alþingis kanni hvort, og þá hvar, formleg mörk liggja í þessum málum. Hvenær trúnaður sé rofinn og hvenær ekki. Jafnframt hef ég upplýst forseta Alþingis um málið og mikilvægi þess að fá úr þessu skorið.“

Hann álítur að teljist „hófstilltu ummælin mín“ vera trúnaðarbrestur í skilningi laganna sé Alþingi vandi á höndum. „Það myndi binda hendur alþingismanna nokkuð svakalega ef þeir mega ekki tala á almennum nótum um störf þingnefnda Alþingis.“

mbl.is

Bloggað um fréttina