Katrín vinsælust en Kristján langóvinsælastur

Mismikil ánægja er með störf ráðherra.
Mismikil ánægja er með störf ráðherra. mbl.is/Arnþór Birkisson

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra er sá ráðherra sem flestir eru ánægðir með. Minnst er ánægjan hins vegar með störf Kristjáns Þórs Júlíussonar sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra en aðeins níu prósent þjóðarinnar segjast ánægð með störf hans. Er hann langóvinsælastur ráðherra.

Þetta eru niðurstöður könnunar sem Maskína gerði fyrir fréttastofu Stöðvar 2, Vísis og Bylgjunnar í lok janúar og byrjun febrúar, en greint var frá þeim í kvöldfréttum Stöðvar 2. Þar voru þátttakendur spurðir út í störf hvers ráðherra og hvort þeir væru ánægðir eða óánægðir með þau. 

Sem fyrr segir var ánægja með störf Katrínar mest. Alls sögðust 58% aðspurðra ánægð með störf hennar, en 20% óánægð. Næstur kemur Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, en 47% aðspurðra segjast ánægð með störf hans en 19% óánægð. Því næst koma Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra og Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra.

Á eftir Kristjáni Þór í röð þeirra ráðherra sem mest óánægja er með koma Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra. Um 43% þátttakenda eru óánægð með störf Bjarna en 33% ánægð. Hins vegar eru 37% óánægð með störf Guðmundar Inga en 28% ánægð. 

Þannig eru bæði fleiri sem lýsa ánægju og óánægju með Bjarna, en mun fleiri segjast þannig hlutlausir gagnvart ágæti Guðmundar Inga í starfi.

Athygli vekur að ánægja með ráðherra Sjálfstæðisflokksins er áberandi minnst. Ef frá er talinn Guðmundur Ingi, sem er varaformaður Vinstri-grænna, þá einoka ráðherrar Sjálfstæðisflokksins neðri helming ánægjulistans og enginn þeirra skipar sér í efri helming listans sé farið eftir ánægju.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert