Niðurstaðan styrki FÍA í baráttu sinni

Jón Þór Þorvaldsson, formaður FÍA.
Jón Þór Þorvaldsson, formaður FÍA. mbl.is/Hari

„Niðurstaða héraðsdóms rennir styrkum stoðum undir rök FÍA í baráttu sinni gegn ólögmætum félagslegum undirboðum og gerviverktöku Bláfugls en í síðustu viku höfðaði FÍA mál fyrir Félagsdómi varðandi ólögmætar uppsagnir flugmanna Bláfugls sem starfa á kjarasamningi.“

Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá Félagi íslenskra atvinnuflugmanna vegna úrskurðar Héraðsdóms Reykjaness þar sem kröfu Bláfugls um að fella úr gildi ákvörðun sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu um synjun á lögbannskröfu á verkfallsaðgerðir FÍA var hafnað.

Eftir að Bláfugl sagði upp ellefu starfsmönnum og félagsmönnum í FÍA á meðan kjaraviðræður stóðu yfir boðaði félagið til verkfalls sem hófst 1. febrúar. FÍA efndi einnig til verkfallsvörslu á Keflavíkurflugvelli sem Bláfugl taldi ólögmætt og reyndi að fá lögbann á. Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu hafnaði þeirri kröfu og nú hefur héraðsdómur staðfest þá ákvörðun.

Í yfirlýsingunni segir að í úrskurðinum hafi verið tekið fram „að ekkert hafi komið annað fram en að til verkfalls hafi verið boðað með lögmætum hætti. Má af því leiða að FÍA hafði fullan rétt á því að standa vörð um boðað verkfall og gæta þess að ekki sé gengið í störf þeirra sem eru í verkfalli.“

„Í úrskurðinum kemur skýrt fram að dómurinn telji kominn fram vafa um lögmæti uppsagna Bláfugls á flugmönnum félagsins sem starfa á kjarasamningi. Þannig segir í niðurstöðu dómsins að meðan á kjaraviðræðum deiluaðila stóð hafi Bláfugl ráðið til sín átta nýja flugstjóra og tvo flugmenn á verktakakjörum og rúmum mánuði síðar sagt upp átta fastráðnum flugstjórum og tveimur flugmönnum innan vébanda stéttarfélagsins.“

Þá segir að af úrskurðinum megi einnig leiða að vísbendingar séu um að flugmenn félagsins sem ráðnir voru inn sem verktakar séu í raun launþegar, og þar með gerviverktakar. Bláfugli var gert að greiða málskostnað að fjárhæð 620 þúsund krónur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert