Drífa segir óhugsandi að útgerðin hafi ekki ráðið för

Drífa Snædal, forseti ASÍ.
Drífa Snædal, forseti ASÍ. Ljósmynd/Aðsend

Drífa Snædal, forseti ASÍ, segir nær óhugsandi að að útgerðin hafi ekki verið meðvituð um stöðuna og verið með í ráðum þegar ákveðið var að halda áfram veiðum eftir að ljóst var að skipverjar um borð í Júlíusi Geirmundssyni væru mjög veikir fyrir fimm mánuðum.

„Samkvæmt sjómannalögum ber skipstjóri nær alla ábyrgð um borð en hafa skal í huga að lögin eru miðuð út frá þeim veruleika að fjarskipti voru lítil sem engin við útgerð.

Í dag eru skipstjórar iðulega í miklum samskiptum við útgerðina í landi varðandi ákvarðanir um borð og nær óhugsandi að útgerðin hafi ekki verið meðvituð um stöðuna og verið með í ráðum. Engu að síður gengur þessi tiltekni skipstjóri fram fyrir skjöldu og axlar ábyrgð en útgerðin er laus allra mála,“ segir Drífa í forsetapistli ASÍ í dag.

Afturför í öryggismálum

„Dómurinn yfir skipstjóranum er svo í engu samræmi við alvarleika málsins þar sem hann er sviptur skipstjóraréttindum í fjóra mánuði en heldur réttinum til að vera stýrimaður á meðan. Stýrimaður leysir skipstjóra af og því hefur þessi dómur nær engin áhrif á hvorki skipstjóra né útgerð,“ segir Drífa í pistli sínum.

Hún segir sjómenn sitja eftir með þá stöðu að útgerðin og atvinnurekandi þeirra hafi lagt þá í stórhættu en litlar afleiðingar orðið. Hún segir þetta afturför í öryggismálum sjómanna sem er eitt stærsta kjaramál þeirra.

„Starfið eitt og sér er hættusamt og algjörlega óásættanlegt að nú hafi bæst við einn stóralvarlegur áhættuþáttur fyrir sjómenn, þ.e. að þeir geti átt von á að lífi og heilsu sé stefnt í hættu með slæmum ákvörðunum skipstjóra og/eða útgerðar.“

Lesa má pistil Drífu í heild sinni á Facebook-síðu ASÍ hér:mbl.is