Sendi afmæliskort á auglýsingaskilti

Í fyrstu hálfskelkuð en að endingu mjög ánægð.
Í fyrstu hálfskelkuð en að endingu mjög ánægð. Ljósmynd/Facebook

Lögmaðurinn Jóhannes S. Ólafsson lét sér ekki nægja blómvönd eða eitthvað álíka lítillátt til að óska ástkonu sinni til hamingju með afmælið í gær, Sigrúnu Jóhannsdóttur, sem var að verða fertug.

Jóhannes lét útbúa sérstakt afmæliskort fyrir Sigrúnu sem hann hengdi upp á auglýsingaskilti í Kaplakrika. Þar blasti það við umferðinni á einni hlið skiltisins í allan dag í gær og vakti skiljanlega athygli vegfarenda, sem margir birtu myndir af skiltinu á samfélagsmiðlum.

„Sigga, þú ert mín ástkona“ stóð á auglýsingaskilti í Kaplakrika …
„Sigga, þú ert mín ástkona“ stóð á auglýsingaskilti í Kaplakrika í allan dag í gær. Ljósmynd/Facebook

Þetta var þó fyrst og fremst stílað á Sigrúnu, sem Jóhannes plataði með sér í bíltúr upp í Hafnarfjörð í gær, eftir að hafa sjálfur beðið í ofvæni eftir stóra deginum. „Þetta var aðallega erfitt fyrir mig að bíða með þetta í marga mánuði. Ég var stressaður yfir því hvernig þetta færi í hana og það stress magnaðist bara upp,“ segir Jóhannes í samtali við mbl.is.

Að hans sögn var Sigrún í fyrstu hálfskelkuð með þetta en svo vann þetta á þegar leið á daginn. Að endingu var hún mjög sátt og markmiði Jóhannesar náð, sem var að draga konuna aðeins út í sviðsljósið sem hún kann almennt ekki endilega nógu vel við. „Ég held að hún hafi haft gott af þessu,“ segir hann.

mbl.is