Skjálftahrinan streituvaldandi

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Nú er ég að keyra frá Grindavík þar sem er rafmagnslaust og búið að vera í rúma tvo tíma,“ segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. Hún ferðaðist um Suðurnesin í dag þar sem meðal annars var farið yfir jarðhræringar og mögulega eldvirkni á svæðinu.

Katrín fundaði meðal annars með bæjarstjórn Grindavíkur og fannst fólk þar sýna ótrúlegt æðruleysi. „Enda eru þau nú búin að búa við jarðhræringar í heilt ár,“ segir Katrín og heldur áfram:

„Fólk er auðvitað orðið svolítið langþreytt á stöðunni, sem bætist ofan á annað í samfélaginu.“

Frá Grindavík.
Frá Grindavík. mbl.is/Sigurður Bogi

Spurð hvort henni þyki fólk stressað eða órólegt vegna spáa um mögulegt hraunflæði í grennd við bæinn segir forsætisráðherra að ástandið sé að sjálfsögðu streituvaldandi og að fólk hafi áhyggjur. 

„Við fórum yfir skipulagið og mér sýnist bæjaryfirvöld hafa gert mjög vel í því að halda öllum upplýstum og tryggja að íbúar fái sem bestar upplýsingar á hverjum tíma þannig að það sé hægt að bregðast hratt og örugglega við ef eitthvað kemur upp á.“

Upphaflega ætlaði Katrín að hitta Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum, heimsækja ýmsa staði og ræða atvinnuástandið en vegna jarðhræringa undanfarna daga breyttust þær áætlanir. Hún segir stöðu atvinnu þunga á svæðinu enda flugrekstur og ferðaþjónusta mikilvæg þar en atvinnuleysi hefur mælst í hæstu hæðum á svæðinu síðan Covid-19- faraldurinn hófst.

Veðurstofan fékk nýlega aukið fjármagn til að fjölga mælum

Katrín segir að öll mál tengd almannavörnum séu í algjörum forgangi hjá ríkisstjórninni. Nokkuð hefur borið á kvörtunum vegna þess að vefur Veðurstofunnar dettur út þegar margir vilja skoða hann í tengslum við stóra skjálfta.

Spurð hvort standi til að veita Veðurstofunni aukið fjármagn til að vefurinn haldi betur sjó segir Katrín að ríkisstjórnin hafi nýlega veitt stofnuninni fjármagn til að fjölga mælum þannig að betur sé hægt að fylgjast með jarðhræringum við Keili og Fagradalsfjall.

Ef hægt er að styrkja betur við vef Veðurstofunnar þá munum við að sjálfsögðu bregðast við því,“ segir Katrín en vísar að öðru leyti á ráðherra sem fer með málefni Veðurstofunnar; Guðmund Inga Guðbrandsson umhverfisráðherra. 

mbl.is