Tveir í haldi vegna líkamsárásar

mbl.is/Eggert

Tveir eru í haldi vegna líkamsárásar á höfuðborgarsvæðinu skömmu eftir miðnætti. Ekki kemur fram í dagbók lögreglunnar hvort einhver var fluttur á spítala né heldur hvar árásin var gerð.

Kona sem hafði fallið í stiga var flutt með sjúkrabifreið á bráðamóttöku Landspítalans í gærkvöldi með slæma áverka á enni. Maður sem hafði dottið á reiðhjóli var síðan fluttur með sjúkrabifreið á bráðamóttöku Landspítalans á ellefta tímanum í gærkvöldi. 

Lögreglu barst tilkynning um árekstur og að tjónvaldurinn hefði stungið af upp úr klukkan níu í gærkvöldi. Ekki er vitað hver hann er. Í gærkvöldi var einnig tilkynnt um þjófnað úr verslun og var búðarþjófurinn handtekinn en málið afgreitt á vettvangi.

Sex voru stöðvaðir fyrir akstur undir áhrifum áfengis eða fíkniefna í gærkvöldi og í nótt á höfuðborgarsvæðinu og tvö mál afgreidd á vettvangi þar sem fólk var handtekið grunað um fíkniefnamisferli. 

Skráningarmerki voru tekin af 13 bifreiðum vegna vangoldinna trygginga, bifreiðarnar voru ekki skoðaðar eða hvort tveggja.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert