MAX-inn Mývatn í undirbúningsflugi

Farþegar í fluginu við vélina eftir lendingu á Reykjavíkurflugvelli í …
Farþegar í fluginu við vélina eftir lendingu á Reykjavíkurflugvelli í dag. mbl.is/Sigurður Bogi

Allt gekk að óskum í undirbúningsferð Mývatns, Boeing 737 MAX-vélar Icelandair, í dag en vélar þessarar gerðar eru nú að koma aftur inn í áætlunarflug félagsins eftir langt stopp. Ýmsir stjórnendur og starfsmenn Icelandair voru í ferð dagsins; útsýnisflugi yfir Vestur- og Suðurlandi í blíðskaparveðri. Flogið var til og frá Reykjavíkurflugvelli. 

Öllum undirbúningi vegna endurkomu Boeing 737 er lokið og TF-ICN er klár. Bæði hafa flugvirkjar yfirfarið umrædda vél og aðrar sömu gerðar. Þá hafa flugmenn verið í flughermi í þjálfunarsetri í Hafnarfirði. Prófunarflug sl. miðvikudag, án farþega, gekk ljómandi vel.  

Flugmaðurinn Eiríkur Haraldsson við stjórnvölinn.
Flugmaðurinn Eiríkur Haraldsson við stjórnvölinn. mbl.is/Sigurður Bogi

Til Kaupmannahafnar á mánudag

Kári Kárason var flugstjóri í dag og Eiríkur Haraldsson flugmaður. Bogi Nils Bogason forstjóri Icelandair var með í för og segist bjartsýnn á framhaldið. Sóttvarnareglur verði væntanlega rýmkaðar innan tíðar og þá komi MAX-inn sterkur inn. Félagið muni taka inn alls tólf vélar þessarar gerðar í reksturinn, enda henti þær leiðakerfi þess afar vel.

Fyrsta áætlunarferð Icelandair á Boeing MAX, eftir tæplega tveggja ára kyrrsetningu, verður á mánudag og er stefnan sett til Kaupmannahafnar. Alls 12 flugfélög í heiminum hafa þegar tekið Boeing MAX í rekstur og frá afléttingu kyrrsetningarinnar hafa yfir 9 þúsund ferðir verið flognar, samtals hàtt í 19 þúsund flugtímar. Ekkert óvænt eða nokkur óhöpp hafa komið upp í þeim ferðum.

Horft til Vestmannaeyja úr flugvélinni. Smáeyjar í forgrunni.
Horft til Vestmannaeyja úr flugvélinni. Smáeyjar í forgrunni. mbl.is/Sigurður Bogi
Boeing MAX á Reykjavíkurflugvelli í morgun.
Boeing MAX á Reykjavíkurflugvelli í morgun. mbl.is/Sigurður Bogi
Horft ofan í toppgíg Heklu, hins máttuga eldfjalls, sem er …
Horft ofan í toppgíg Heklu, hins máttuga eldfjalls, sem er 1.491 metra hátt. mbl.is/Sigurður Bogi
mbl.is