Minnst 40% voru undir áhrifum

Rafskútur hafa átt auknum vinsældum að fagna síðustu ár.
Rafskútur hafa átt auknum vinsældum að fagna síðustu ár. mbl.is/Hari

„Ég held að rafskútur séu ný og mjög gagnleg viðbót við samgöngumáta okkar. Það er eðlilegt fyrir samfélagið að það taki tíma fyrir fólk að læra á þær,“ segir Hjalti Már Björnsson, yfirlæknir á bráðamóttöku Landspítalans.

Hjalti hefur ásamt Sigrúnu Guðnýju Pétursdóttur tekið saman og greint rafskútuslys sem urðu á höfuðborgarsvæðinu síðastliðið sumar. Niðurstöðurnar voru kynntar á Bráðadeginum í gær og mun nánari greining þeirra birtast í grein í Læknablaðinu á næstunni.

Síðasta sumar leituðu 149 einstaklingar á bráðamóttöku vegna rafskútuslysa, að meðaltali 1,6 á dag.

„Aldursbilið var frá 8 árum upp í 77 ár; 45% voru yngri en 18 ára og 58% voru karlkyns. Í 60% tilvika reyndist orsök slyss vera að farið hafi verið of hratt, viðkomandi misst jafnvægi eða ójafna í götu. Reyndust 79% barna hafa notað hjálm en einungis 17% fullorðinna. Engin börn voru undir áhrifum áfengis eða vímuefna en meðal 18 ára og eldri sögðust 40% hafa verið undir áhrifum þegar slysið átti sér stað. Reyndust 38% með beinbrot og 6% þurftu innlögn á sjúkrahúsið til eftirlits eða meðferðar en enginn flokkaðist sem alvarlega slasaður samkvæmt AIS flokkun,“ segir í niðurstöðum þeirra Hjalta og Sigrúnar.

Áfengið er bölvaldur

Hjalti segir í samtali við Morgunblaðið að það sé vissulega athyglisvert hversu há tíðni slysa fullorðinna á rafskútum tengist áhrifum áfengis. „Það er alveg ástæða til að setja fingur á það hversu mikill bölvaldur áfengið er. Maður sér það við vinnu á bráðamóttökunni, áfengið á stóran þátt í komu ansi margra þangað,“ segir yfirlæknirinn og bætir við að augljóst sé að því fylgi aukin slysahætta að ferðast um undir áhrifum. Fólk þurfi að læra að nota ekki rafskútur við þær aðstæður.

Betri stíga og aukna fræðslu

Hann segist almennt telja að í stóra samhenginu verði ekki mörg slys á rafskútum. „1-2 slys á dag miðað við umfang allra slysa er ekki mikið. Mun fleiri koma á hverjum degi eftir slys við boltaíþróttir, eða aðra samgöngumáta. Ég hef þó fulla trú á að fólk læri betur á rafskúturnar og slíkum slysum muni fækka. Það er viðbúið að meira sé um slys meðan fólk er að venjast því að nota skúturnar.“

Hjalti kveðst telja að besta leiðin til að draga úr slysatíðni vegna rafskúta sé að bæta hjólastíga, hvetja til hjálmanotkunar og auka fræðslu um hættu af notkun þeirra undir áhrifum áfengis og vímuefna.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »