Rétttrúnaðarkirkjan fær framlengdan frest

Svona mun rétttrúnaðarkirkjan við Mýrargötu líta út frá Nýlendugötu.
Svona mun rétttrúnaðarkirkjan við Mýrargötu líta út frá Nýlendugötu. Teikning/Arkitekto

Borgarráð samþykkti á fundi sínum á fimmtudag að veita rússnesku rétttrúnaðarkirkjunni á Íslandi tveggja ára viðbótarfrest til að hefja framkvæmdir við byggingu kirkju á lóð sinni í gamla Vesturbæ Reykjavíkur.

Saga lóðarúthlutunarinnar er orðin ansi löng en kirkjan fékk lóðina fyrst úthlutaða í október 2008 fyrir byggingu kirkju. Lóðin liggur á gatnamótum Mýrargötu og Bakkastígs skammt frá Loftkastalanum, en samningur var undirritaður um leiguna í apríl 2011 með þeim skilyrðum að framkvæmdir yrðu hafnar innan þriggja ára.

Kirkjan frá Mýrargötu.
Kirkjan frá Mýrargötu. Teikning/Arkitekto

Vegna óánægju nágranna með upphaflegar tillögur að kirkjubyggingu, og breytinga á deiliskipulagi sem fylgdu, tafðist undirbúningur en breyta þurfti hönnun kirkjunnar. Var rétttrúnaðarkirkjunni þá gefinn frestur til 31. janúar 2021 til að hefja framkvæmdir.

Breyting á deiliskipulagi fyrir lóðirnar, m.a. þar sem umfang og hæð kirkjunnar var minnkuð, ásamt því að kirkjuturn var lækkaður, var samþykkt á fundi borgarráðs 21. nóvember 2020.

Óskaði rétttrúnaðarkirkjan síðar eftir framlengdum fresti vegna þess skamma fyrirvara sem var til stefnu eftir samþykkt borgarráðs, sem og áhrifa heimsfaraldurs kórónuveirunnar á framþróun verkefnisins og aðkomu fjárfesta. Var hann sem fyrr segir veittur og hefur rétttrúnaðarkirkjan því fram til 31. janúar 2023 til að hefja framkvæmdir. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert