Aukin virkni vegna spennubreytinga

Ekkert bendir til þess að kvika sé í grennd við …
Ekkert bendir til þess að kvika sé í grennd við Grindavík. mbl.is/Sigurður Bogi

Aukin skjálftavirkni á Reykjanesskaga frá miðnætti er til komin vegna spennubreytinga í jarðskorpunni, en ekki er talið að þær séu vegna tilfærslu á kviku. Því er ekki talið að hún sé skammtímafyrirborði um eldgos.

Salóme Jórunn Berharðsdóttir, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofunni, segir að kvikugangurinn sem þegar hafi myndast milli Fagradalsfjalls og Keilis sé að þrýsta sér á milli í skorpunni sem eykur spennu á skorpuna annars staðar. Það valdi skjálftum bæði við Trölladyngju og vestan við Fagradalsfjall allt að Grindavík.

„Það er ekkert sem bendir til þess að það sé kvika í grennd við Grindavík. Það er ekki kvika sem er að valda þessum skjálftum beint. En þetta er náttúrlega afleiðing þess að það er kvika að troða sér upp á milli annars staðar,“ segir hún. Sviðsmyndir séu því óbreyttar frá því sem áður var.

Skjálftavirkni hefur verið mikil í dag samanborið við síðustu daga. Um 1.100 skjálftar höfðu mælst frá miðnætti til klukkan níu í morgun, þar af 35 yfir 3 að stærð og fjórir yfir 4. Stærstur þeirra var 5,0 að stærð um klukkan tvö.

Náttúruvársérfræðingar Veðurstofunnar og almannavarnir fylgjast vel með gangi máli og lögregla og Vegagerðin hafa verið á ferð og kannað hvort skemmdir hafi orðið á vegum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert