Covid-smitaður á tónleikum í Hörpu

Tónlistar og ráðstefnuhúsið Harpa við Austurhöfnina í Reykjavík
Tónlistar og ráðstefnuhúsið Harpa við Austurhöfnina í Reykjavík mbl.is/Júlíus Sigurjónsson

Eftir samráð við almannavarnir er ekki talin ástæða til að breyta neinu varðandi viðburði sem eru fram undan í Hörpu. Þetta kemur fram í tilkynningu frá tónlistar- og ráðstefnuhúsinu í kjölfarið á því að smitrakning á nýgreindum Covid-smitum hér á landi nær til tónleika í Hörpu á föstudagskvöld.

Í kjölfar samskipta og samráðs við smitrakningarteymi almannavarna og sóttvarnalæknis er fyrirhugað að hefja skimun á mánudag meðal allra þeirra sem sóttu tónleika í Hörpu hinn 5. mars síðastliðinn sem hófust kl. 20,“ kemur fram í tilkynningu frá Hörpu en smit er rakið til gests sem var á tónleikum í Eldborg á föstudagskvöld.

Það var mat rakningarteymis almannavarna að strangar sóttvarnareglur og ábyrg framkvæmd viðburða í Hörpu gerðu það að verkum að einungis 10 einstaklingar sem sátu næst einstaklingnum þyrftu að fara í sóttkví. Sem varúðarráðstöfun er nú verið að biðla til allra gesta á tónleikunum að koma í skimun á mánudag.

mbl.is