Framhald faraldursins ræðst á þriðjudag

Þórólfur Guðnason.
Þórólfur Guðnason. Ljósmynd/Almannavarnir

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir engar vísbendingar benda til þess að innanlandssmit sem upp komu í gær megi rekja til þess að landamærasóttkví hafi ekki verið virt. Hins vegar viti sóttvarnayfirvöld af mörgum dæmum þess að fólk virði ekki reglur um sóttkví án þess að nokkuð bendi til þess að svo hafi verið nú.

Hann segir einnig að það muni ráðast eftir morgundaginn hvort hér á landi sé að upphefjast ný bylgja kórónuveirufaraldursins.

„Við höfum engar vísbendingar eða sannanir í þessu tilfelli um að svo hafi verið,“ sagði Þórólfur þegar mbl.is spurði hann hvort innanlandssmit gærdagsins mætti rekja til gáleysis einhverra sem áttu að vera í sóttkví. Hann segir samt að smit verði einhvern veginn og að reynt hafi verið að koma í veg fyrir nákvæmlega þessa atburðarás þegar aðgerðir voru hertar á landamærum. 

„Og það sem við gerum núna, þegar fólk greinist með þetta breska afbrigði, er að það er sent í farsóttarhús. Í mörgum tilfellum munum við aldrei vita hvað fór úrskeiðis, hvað gerðist. Það eina sem við getum gert er bara að tala við fólk, heyra hvað það segir og fengið á tilfinninguna hvort það sé að segja satt eða hvað. Það er ekkert núna í þessu tilfelli sem við getum hengt hatt okkar á hvað það varðar.”

Framhaldið ræðst á þriðjudag

Þórólfur segir að það ráðist eftir morgundaginn hvort innanlandssmitin í gær hrindi af stað fjórðu bylgju faraldursins hér á landi. Niðurstöður skimunar þeirra sem berskjaldaðir voru á Landspítala annars vegar og í Hörpu hins vegar liggja fyrir þá.

„Ég held að við þurfum að sjá hvað skimunin á Landspítalanum leiðir í ljós og það hafa verið fleiri svona úti í bæ sem sendir hafa verið í skimun og svo er fólk sem var í Hörpunni að fara í skimun.

Þannig að eftir morgundaginn munum við sjá betur hvernig staðan er. Þannig ef að enginn greinist í því þá getum við  bara verið ánægð með það en þetta sýnir hvað þetta er viðkvæm staða og hvað einn einstaklingur getur verið fljótur að dreifa þessu út um allt.“

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. Ljósmynd/Lögreglan
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert