Hjallastefnan fær lóð undir grunnskóla við Perluna

Lóðin sem Hjallastefnan hefur fengið lóðavilyrði fyrir er fyrir neðan …
Lóðin sem Hjallastefnan hefur fengið lóðavilyrði fyrir er fyrir neðan bílastæðin við Perluna.

Borgarráð Reykjavíkurborgar samþykkti á fundi sínum í gær lóðavilyrði fyrir tæplega 6.000 fermetra lóð fyrir neðan bílastæðin við Perluna sem ætluð er undir grunnskóla Hjallastefnunnar. Samkvæmt vilyrðinu verður hægt að byggja 1.950 fermetra skólabyggingu. Er þetta í samræmi við viljayfirlýsingu borgarinnar og Hjallastefnunnar frá því í september árið 2008.

Þrjár lóðir í austurhlíð Öskjuhlíðar komu til greina líkt og sjá má á meðfylgjandi mynd. Skipulags- og samgönguráð borgarinnar lagði til að litið yrði til kosta A eða B og skrifstofa borgarstjóra lagði til að veitt yrði lóðavilyrði fyrir lóð B sem borgarráð samþykkti.

Lóðirnar þrjár sem voru til skoðunar við Perluna undir grunnskóla …
Lóðirnar þrjár sem voru til skoðunar við Perluna undir grunnskóla Hjallastefnunnar.

Í fundargerð borgarráðs má meðal annars finna minnisblað sem gert var fyrir borgina um staðsetningarnar. Þar er meðal annars gerð athugasemd við rýrar samgöngur við svæðið fyrir börn. „Allir valkostirnir þrír eru slitnir úr tengslum við borgarhverfi auk þess sem almenningssamgöngur að svæðinu eru rýrar. Nemendur eru því háðir akstri til og frá skóla. Í þessu ljósi verður að skoða betur hvort skólinn ætti ekki að vera í sterkari tengslum við rótgróin hverfi eða ný hverfi sem eru í þróun,“ segir í minnisblaðinu.

Kvöð verður á lóðinni, verði hún samþykkt í deiliskipulagi, að hún megi eingöngu vera undir húsnæði til skólareksturs og að önnur starfsemi verði ekki heimiluð á lóðinni.

mbl.is