„Mjög ónotalegt í það minnsta“

Fannar Jónasson, bæjarstjóri í Grindavík.
Fannar Jónasson, bæjarstjóri í Grindavík. mbl.is/Hanna

Bæjarstjórinn í Grindavík, Fannar Jónasson, vaknaði við skjálftann sem varð laust eftir klukkan tvö í nótt. „Ég held að það hljóti nú langflestir fullorðnir Grindvíkingar að hafa vaknað við þennan skjálfta, hann var öflugur og svo komu margir skjálftar í kjölfarið. Þeir voru áberandi hér vegna þess hversu upptökin voru nálægt okkur,“ sagði Fannar í samtali við mbl.is. 

Aðspurður segir Fannar það misjafnt hversu órólegt fólk er. „Þetta er ekki í fyrsta sinn sem svona ríður yfir hjá okkur þannig að sumir eru rólegir, það er verra að fá þetta að nóttu til en ég held að auðvitað líði öllum mjög mismunandi ónotalega að vakna við þetta, að vera að fá þetta svona í myrkrinu og nóttinni en það er ekki hægt að segja neitt annað en að þetta sé mjög ónotalegt í það minnsta.“ 

Miðað við stærðina á skjálftanum og hvernig skjálftinn fannst heima hjá Fannari finnst honum ekki ólíklegt að eitthvað hafi dottið úr hillum hjá Grindvíkingum. Ekkert hafi þó dottið úr hillum hjá Fannari en myndir á veggjum skekktust í nótt.

Kyrrð og ró yfir bænum

Þegar mbl.is heyrði í Fannari í morgun var klukkan rúmlega níu. Hann sagði þá kyrrð og ró vera yfir bænum og varla bíl á ferð. Hann átti því enn eftir að heyra hljóðið í Grindvíkingum eftir nóttina. „Ætli fólk sé ekki bara svona heima við með fjölskyldunni,“ bætti Fannar við.

Fannar segir Grindavík í sjálfu sér alltaf vera með viðbúnað við jarðskjálftum. Fundað var í nótt með veðurstofunni að tilstuðlan almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra og segir Fannar ástandið hafa verið metið svo að þetta væri ekki nein vísbending um að kvika væri nálægt Grindavík en um skjálftahrinu væri að ræða. 

„Lögregla og allir aðilar eru tilbúnir ef eitthvað þarf að hittast eða gera en það er ekkert fyrr en ástæða er til þess,“ sagði Fannar að lokum.

mbl.is