Ógnaði unglingum með hníf

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fékk í nótt tilkynningu um mann sem ógnaði unglingum með hníf í Hafnarfirði. Þrátt fyrir talsverða leit fannst viðkomandi ekki.

Þá hafði lögreglan í nótt afskipti af slagsmálum í Garðabæ þar sem fjórir slógust. Fram kemur í dagbók lögreglu að upplýsingar séu til staðar um þá sem tóku þátt í slagsmálunum og gætu þeir átt von á kæru í framhaldinu.

Í Grafarvogi var tilkynnt um líkamsárás þar sem fjórir menn réðust á annan. Eftir upplýsingatöku gengu allir sína leið.

Samtals komu 100 mál inn á borð lögreglunnar í nótt, en þar af voru 25 hávaðakvartanir.

Nokkur ölvunar- og fíkniefnaakstursmál komu upp í nótt. Þá voru tveir menn handteknir í kópavogi eftir að ekið var á ljósastaur, en báðir sögðust þeir hafa verið ökumenn.

mbl.is