Þórólfur tók ekkert eftir skjálftanum

Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn og Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn og Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Jarðskjálfti 4,2 að stærð fannst vel í húsakynnum landlæknis í Katrínartúni nú klukkan 17:06 á meðan upplýsingafundur almannavarna stóð yfir. Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn hafði nýopnað fyrir spurningar blaðamanna þegar skjálftinn reið yfir og var blaðamaður mbl.is að bera upp spurningu sína þegar skjálftinn hófst. 

Blaðamaður fann skjálftann greinilega en tók eftir að Víðir og Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir virtust ekki kippa sér upp við hristinginn.

Þórólfur ræddi stuttlega við mbl.is eftir fundinn og skaut Víðir að honum í miðju samtali við blaðamann að fyrstu tölur Veðurstofunnar gerðu ráð fyrir að skjálftinn hefði verið „rúmlega fjórir að stærð“.

Þórólfur varð þá hvumsa og spurði til baka: „Nú, varð skjálfti áðan?“

Já, ég tók einmitt eftir því að þið Víðir depluðuð ekki auga.

„Ég tók ekkert eftir þessu. Það hefði verið gaman að upplifa þetta svona í beinni.“ 

Já, taka Helga Hrafn?

„Já, einmitt,“ svaraði Þórólfur og hló.

Greinilegt er að menn eru einbeittir að þeim brýnu verkefnum sem nú bíða þeirra en mögulegt hópsmit er í uppsiglingu innanlands, eins og fram kom á fyrrgreindum upplýsingafundi og greint hefur verið frá í fréttum mbl.is.

mbl.is