Bólusetningu frestað vegna smits

Bólusetning í Laugardalshöll í síðustu viku.
Bólusetning í Laugardalshöll í síðustu viku. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hægt verður á bólusetningu eldra fólks í Laugardalshöllinni í þessari viku vegna Covid-smitsins sem kom upp hjá starfsmanni Landspítalans. Í staðinn verður lokið við að bólusetja yngri starfsmenn Landspítalans með bóluefni AstraZeneca.

Óskar Reykdalsson, forstjóri heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, segir að embætti landlæknis vilji leggja meiri áherslu á starfsmenn spítalans vegna smitsins sem kom upp hjá starfsmanninum.

Á morgun verða árgangar '40, '41 og '42 bólusettir, eða um þrjú þúsund manns. Eftir það verður gert hlé á bólusetningunni. „Það hægist örlítið á þessum hópi vegna þess að það er metið svo af sóttvarnalækni að það sé skynsamlegt að fara meira inn í spítalann,“ segir Óskar.

Óskar Reykdalsson.
Óskar Reykdalsson.

Hann býst við því að haldið verði áfram að bólusetja eldra fólk eftir helgi en upphaflega var gert ráð fyrir því að bólusetja það út þessa viku.

Óskar bætir við að bólusetningin í Laugardalshöll á morgun leggist vel í sig og áhuginn sé mikill. „Við erum í startholunum með að taka við þessum hópi á morgun. Það hefur verið góð þátttaka, betri en við áttum von á,“ segir hann og nefnir að mikil gleði og jákvæðni sé í kringum vinnuna við bólusetninguna.

mbl.is