Foreldrar lyftu bílnum af barninu

Frá vettvangi slyssins.
Frá vettvangi slyssins.

Eigandi bílsins, sem rann mannlaus á rólu þar sem börn voru að leik í gær, stökk út úr bílnum í götunni fyrir ofan – sem hallar nokkuð – til þess að loka dyrum annars bíls. Hann gætti þess ekki að setja bílinn sinn í handbremsu né hafa hann í gír og rann bíllinn niður götuna, yfir steyptan kant, og í garð.

Þetta staðfestir Sævar Guðmundsson, aðalvarðstjóri lögreglunnar í Hafnarfirði, í samtali við mbl.is.

Bílinn lenti á rólu þar sem tvö börn voru að leika sér. Annað barnanna varð fyrir bílnum og var flutt á sjúkrahús. Á heimilinu var verið að halda upp á barnaafmæli. Sævar sagði þónokkra afmælisgesti hafa orðið vitni að atburðinum, sem er hinn ótrúlegasti, og að foreldrar hafi lyft bílnum af barninu.

Áfallahjálp var veitt viðstöddum í kjölfar atviksins.

Brýtur gegn ákvæðum umferðarlaga

„Það er alveg skýrt í umferðarlögum hvernig á að ganga frá bíl þegar þú ferð frá bíl, þannig að hann geti ekki runnið svona af stað og óviðkomandi geti ekki tekið hann. Þannig að þetta brýtur gegn ákvæðum umferðarlaga. Svo verður það bara að koma í ljós hvort að kært verður fyrir önnur brot, málið er bara til rannsóknar hjá okkur og það á eftir að yfirheyra manninn,“ segir Sævar spurður hvort gáleysi af þessu tagi geti talist glæpsamlegt. 

Sævar segir ljóst að bíllinn hafi runnið á nokkrum hraða. Hann segir mögulegt að stórgrýti ofar í brekkunni í garðinum, sem afmarkaði leiksvæðið, hafi dregið úr ferð bílsins. 

„Þetta er ömurlegt slys á allan hátt. Hvernig þetta gat gerst – og að bíllinn skyldi renna þarna stjórnlaust niður og hafna akkúrat á þessu leiksvæði – er alveg með ólíkindum,“ segir Sævar.

Ekki liggja fyrir nákvæmar upplýsingar um líðan barnsins sem varð fyrir bílnum. Sævar segir ljóst að verr hefði getað farið. Barnið gisti á sjúkrahúsi í nótt. 

„Það var talað um aflögun á fæti fyrst. En nú lítur út fyrir að ekki sé um brot að ræða – ég þori ekki að fara með það,“ segir Sævar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert