Getum andað léttar eftir tvær vikur

Ekkert smit hefur greinst það sem af er degi í …
Ekkert smit hefur greinst það sem af er degi í skimun starfsfólks á göngudeild lyflækninga. Myndin er úr safni. mbl.is/Arnþór

Már Kristjánsson, yfirlæknir á smitsjúkdómadeild Landspítalans, segir að ekkert smit hafi greinst það sem af er degi í skimun starfsfólks á göngudeild lyflækninga, þar sem einn starfsmaður reyndist smitaður um helgina.

Allir sem áttu að fara í sýnatöku í dag hafa þegar gert það og fyrri umferð er þannig lokið, án þess að séð verði að svo stöddu að starfsmaðurinn hafi borið smit í aðra starfsmenn sjúkrahússins.

Már Kristjánsson, yfirlæknir smitsjúkdómadeildar á Landspítala.
Már Kristjánsson, yfirlæknir smitsjúkdómadeildar á Landspítala. mbl.is/Ásdís

„Þetta eru frábærar fréttir en í rauninni er það ekki fyrr en eftir viku eða svo sem við getum farið að anda eitthvað léttar, og eiginlega ekki fyrr en eftir tvær vikur,“ segir Már.

Fyrsta innanlandssmitið í nokkurn tíma

Það var einstaklingur sem kom heim frá útlöndum 26. febrúar, sem mun hafa smitað umræddan starfsmann Landspítala og einnig annan einstakling til viðbótar. Þess vegna er talað um að innanlandssmitin hafi verið tvö um helgina og enn liggur ekki fyrir hvort þau hafi orðið fleiri.

„Þetta eru tvö samfélagssmit og vonandi endurspeglast þau síðan ekki í fleiri smitum. En ef ekkert kemur upp á næstu tveimur vikum erum við sloppin,“ segir Már. Hann telur að það taki faraldurinn lengri tíma en fáeina daga að koma fram í smittölum, ef hann er þá hafinn á ný.

Viðbrögðin við tíðindum af innanlandssmiti voru þegar í stað nokkuð mikil og ákveðið var að ráðast í umfangsmikla skimun á öllum gestum tónleika sem haldnir voru í Hörpu á föstudaginn, þar sem smitaður starfsmaður Landspítalans var staddur. Hann var þó staddur í fámennu hólfi og átti lítil samskipti við aðra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert