Horfa aðeins á svæðið við Fagradalsfjall

Hugsanleg staðsetning eldsuppkomu innan svæðisins er dreifð jafnt innan þess.
Hugsanleg staðsetning eldsuppkomu innan svæðisins er dreifð jafnt innan þess. Kort/Eldfjallafræði- og náttúruvárhópur HÍ

Eftir fund í dag var almennur skilningur á meðal jarðvísindamanna um að svæðin Eldvörp, Sýlingafell og Móhálsadalur sýndu ekki merki um kviku.

Þess vegna er Fagradalssvæðið bara tekið inn í líkindareikninga vegna hraunrennslis í dag, að því er kemur fram á facebooksíðu eldfjallafræði- og náttúruvárhóps Háskóla Íslands.

„Svæðið er enn þá stórt og hugsanleg staðsetning eldsuppkomu er því dreift jafnt innan þess. Af þeim sökum er umfang mögulegra rennslisleiða hrauna meira en það myndi vera í raun,“ segir á síðunni.

Fram kemur að líklegustu leiðirnar sem hraun getur runnið ef kemur til eldgoss innan svæðisins er til suðurs í átt að Suðurstrandarvegi. Einnig er möguleiki á hrauntaumi niður að Kúabót við Reykjanesbraut en líkurnar á því eru taldar litlar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert