Kveinkaði sér undan fjölmiðlaumfjöllun

Víkingur Heiðar Ólafsson hefur ekki átt sjö dagana sæla í …
Víkingur Heiðar Ólafsson hefur ekki átt sjö dagana sæla í fjölmiðlum undanfarið, eins og hann rakti fyrir gestum sínum í Hörpu í gærkvöldi. mbl.is/Árni Sæberg

Víkingur Heiðar Ólafsson píanóleikari hélt tónleika í Eldborg í Hörpu í gærkvöldi, þriðja kvöldið í röð. Að þessu sinni vörpuðu tíðindi gærdagsins af hugsanlegu hópsmiti vissum skugga á andrúmsloftið. 

Þegar Víkingur heilsaði gestum af sviðinu hóf hann mál sitt á að rekja raunir sínar af þessum sökum. Hann hafi talið sig kominn yfir erfiðasta hjallinn að vera búinn að halda tvenna tónleika á föstudegi og laugardegi, en síðan hafi framhaldinu verið teflt í tvísýnu þegar sagt var frá því að smitaður einstaklingur hefði verið staddur á tónleikunum í Eldborg á föstudaginn.

Víkingur hefur verið að reyna að halda þessa tónleika lengi en þeim hefur margítrekað verið frestað vegna Covid-19. Ákveðið var að halda tónleika gærdagsins þrátt fyrir allt.

Umfjöllun á RÚV

Segja má að hamfarafréttir um veirusmit á tónleikunum hafi verið enn einn brimskaflinn í ólgusjó Víkings í fjölmiðlum síðustu daga, enda var hann að eigin mati sýndur í heldur nöpru ljósi á RÚV þegar því var slegið fram að hann teldi flygilinn í Hörpu of gamlan fyrir sig.

Þetta fór öfugt ofan í marga og Víkingur áréttaði góðlátlega í gær að þetta hefði ekki verið það sem hann sagði.

Næsta frétt var daginn eftir, á laugardeginum, og þar var lögð áhersla á löng ferðalög hans vegna tónleikahalds. Þar var fyrirsögnin: „Heyrir oft í símanum: „Pabbi koma heim.“

Þriðja fréttin var síðan á sunnudeginum, þegar fjallað var um það í öllum fjölmiðlum að mögulegt hópsmit væri í uppsiglingu eftir að gestur í Hörpu reyndist smitaður af Covid-19, á 800 manna tónleikum Víkings Heiðars.

Salnum var skipt í fjögur hólf og allir þurftu að …
Salnum var skipt í fjögur hólf og allir þurftu að bera grímu. mbl.is/Árni Sæberg

Mozart-plata í pípunum

Eftir að hafa rakið þetta sagðist Víkingur ekki ætla að eyða fleiri orðum í veiruna og tók til óspilltra málanna á flyglinum gamla. Hann vakti reyndar einnig athygli á því að mikil gæfa hefði verið að tónleikagesturinn smitaði hefði hvorki farið fram í hléi né á salernið og í staðinn einfaldlega haldið sig í fámenna hólfinu sínu, nefnilega á efstu svölum í salnum.

Andrúmsloftið á tónleikunum var sem sagt óumflýjanlega litað af óvissu og drunga og hugsanlega er ekki fjarri lagi að álykta að þessar undarlegu kringumstæður hafi leitt til þess að lokum að Víkingur svipti hulunni af næsta verkefni sínu. Hann er að vinna í Mozart-plötu, tilkynnti hann í gær.

„Ég á ekki einu sinni að vera að segja ykkur þetta,“ sagði Víkingur, en sagði það samt.

Aðrir tónleikar eru fyrirhugaðir á morgun í Hörpu en á fimmtudaginn á Ísafirði. Um helgina eru síðan tvennir á Akureyri – að öllu óbreyttu.

Víkingur gaf út plötuna með Debussy og Rameau árið 2020 …
Víkingur gaf út plötuna með Debussy og Rameau árið 2020 en gerði þeim skil á tónleikum á Íslandi árið 2021. Næstur er Mozart. Ljósmynd/Deutsche Grammophon
mbl.is