Settu upp endurvarpa vegna jarðhræringanna

Björgunarsveitin Þorbjörn lagði í leiðangur upp á Núpshlíðarháls um helgina, en hálsinn liggur austur af Fagradalsfjalli. Markmiðið var að setja upp endurvarpa til að auðvelda fjarskipti á þeim slóðum þar sem líklegast þykir nú að eldgos muni eiga sér stað, verði af því á annað borð.

Sveitin hefur haft nóg fyrir stafni síðustu vikurnar eftir að kvika tók að brjóta sér leið upp í jarðskorpuna skammt frá heimabænum Grindavík. Skjálftar hafa skelft bæjarbúa og langvarandi rafmagnsleysi á föstudag bætti ekki úr skák.

Hvað sem verður þá er endurvarpinn nú kominn á sinn stað og björgunarsveitarfólk því í tryggara sambandi, fari svo að sveitin verði kölluð út til aðstoðar vegna hugsanlegra eldsumbrota.

mbl.is