Tveir í haldi vegna líkamsárása

Einn er í haldi lögreglunnar vegna líkamsárásar í Breiðholtinu. Maðurinn var vistaður í fangageymslu lögreglunnar og er málið í rannsókn. Ekkert frekar kemur fram um málið í dagbók lögreglunnar, hvorki hvenær það var né heldur hvar í Breiðholtinu. Ekki heldur hvort sá sem varð fyrir árásinni sé slasaður. Jafnframt var tilkynnt til lögreglu um líkamsárás í Austurbænum (hverfi 104) og einn handtekinn. Sá er vistaður í fangageymslu lögreglunnar vegna málsins.

Næturvakt lögreglunnar fékk tilkynningu um mjög ölvaðan og æstan mann í miðbænum. Þegar lögregla kom á vettvang var ekki hægt að ræða við hann sökum ástands og þegar annar borgari reyndi að segja manninum að vera rólegur þá gerði hann sig líklegan til þess að ráðast á hann. Var maðurinn þá handtekinn og fær að sofa úr sér í fangaklefa.

Tilkynnt var til lögreglu um mann sem gekk berserksgang í húsnæði í miðbænum. Þegar lögregla mætti á vettvang kom í ljós að maðurinn átti við andleg veikindi að stríða og þáði hann aðstoð lögreglu við að komast á slysadeild þar sem tekið var á móti honum.

Brotist var inn í hús í Austurbænum (hverfi 105) í gærkvöldi eða nótt. Málið er í rannsókn lögreglu en einhverju af munum var stolið. 

Af öðru í dagbók lögreglu má nefna árekstur í miðborginni, ölvunarakstur í hverfi 104 og fíkniefnaakstur í Árbænum. Sá var einnig með fíkniefni á sér. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert