Veiran bankar sífellt á dyrnar

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir ásamt Víði Reynissyni yfirlögregluþjóni.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir ásamt Víði Reynissyni yfirlögregluþjóni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir að faraldur kórónuveiru geisi erlendis, ekki hér innanlands, og því hafi verið slakað á aðgerðum hér á landi. Veiran bankar þó, að sögn Þórólfs, sífellt á dyrnar með fólki sem kemur til landsins. Hún getur smeygt sér út fyrir þann hóp líka, eins og sést á þeirri stöðu sem er nú uppi. 

Engin fleiri innanlandssmit kórónuveiru hafa greinst til viðbótar við þau tvö sem greindust um helgina. Bæði smitin tengjast manni sem kom til landsins 26. febrúar síðastliðinn og greindist smitaður í seinni skimun. Annað smitið kom upp hjá manni sem á íbúðina sem maðurinn sem kom að utan dvaldi í. Hitt smitið kom upp hjá starfsmanni Landspítala sem býr á sama stigagangi og sá sem kom að utan.

Þórólfur segir ekki alveg ljóst hvernig fólkið smitaðist.

„Annar aðilinn sem smitaðist og átti íbúðina sem [sá sem kom að utan] dvaldi í, hafði verið að færa honum eitthvað en það var ekkert mikill samgangur eftir lýsingunni að dæma,“ segir Þórólfur í samtali við mbl.is.

LSH hafi lent illa í því að smit hafi komist inn á spítalann

Hann segir engar haldbærar upplýsingar um að maðurinn sem kom að utan hafi farið ógætilega eftir að hann kom til landsins.

Heilbrigðisstarfsmaðurinn sem smitaðist starfar á bráðamóttöku. Spurður hvort það sé ekki alvarlegt að heilbrigðisstarfsmaður hafi smitast segir Þórólfur:

„Það er ekki gott. Landspítali hefur þurft að glíma við það og lent illa í því að fólk hafi borið smit inn á spítalann.“

Bólusetningu heilbrigðisstarfsfólks á að ljúka í aprílmánuði. Spurður hvort það sé nógu snemmt segir Þórólfur:

„Við erum náttúrulega að reyna að bólusetja alla þessa forgangshópa sem við teljum að, í fyrsta lagi séu líklegastir til að smitast og í öðru lagi líklegastir til þess að fara illa út úr smiti ef þeir smitast. Við erum bara að reyna að klára þessa hópa með það magn af bóluefni sem við höfum.“

Nokkur hundruð tónleikagestir úr Hörpu verða skimaðir í dag.
Nokkur hundruð tónleikagestir úr Hörpu verða skimaðir í dag. mbl.is/Árni Sæberg

Munu brýna mikilvæg atriði fyrir Hörpu og leikhúsum

Starfsmaðurinn á Landspítala sem smitaðist mætti á 800 manna tónleika í Hörpu á föstudagskvöld. Hörpu er heimilt að halda svo stóra tónleika með ákveðnum skilyrðum, t.a.m. því skilyrði að svæðinu sé skipt upp í 200 manna svæði.

„Eftir því sem var farið yfir með fólkinu í Hörpu þá átti það alveg að geta gengið. Svo er spurning hvernig framkvæmdin er. Ég get ekki sagt mikið um það en við munum fara yfir þetta með aðilum í Hörpu og þessum stóru leikhúsum og annað. Við munum brýna fyrir þeim þessi atriði sem þurfa að vera í lagi og gera öllum það ljóst að allir þurfi að vanda sig sem mest.“

Kann að vera að fólk telji að baráttunni sé lokið

Er ráðlegt að við séum að halda svona stóra viðburði þegar það er faraldur í gangi?

„Það er faraldur í gangi erlendis, það er ekki faraldur innanlands. Þess vegna höfum við verið að slaka á. En veiran er að sífellt að banka á dyrnar með fólki sem kemur til landsins og hún getur smeygt sér út fyrir þann hóp líka. Það er það sem við sjáum núna,“ segir Þórólfur og bætir við:

„Þess vegna er náttúrulega gríðarlega mikilvægt að allir passi sig og haldi sig innan þeirra reglna sem eru í gildi, passi sig með sínar einstaklingsbundnu sýkingavarnir og sóttvarnir. Það kann að vera að fólk sé farið að slaka of mikið á. Margir eru að passa sig mjög vel en svo heyrir maður fréttir um aðra sem fara ógætilega og það kann að vera að fólk haldi bara að þetta sé búið og það þurfi ekki að passa sig lengur.“

Engin jákvæð sýni enn

Þeir sem voru á tónleikunum í Hörpu á föstudagskvöld hafa verið boðaðir í skimun. Þórólfur segist ekki vita hversu margir það séu nákvæmlega en um sé að ræða nokkur hundruð manns.

„Sýnin sem voru tekin í gær voru neikvæð þannig að það var bara fínt. Svo þurfum við bara að bíða lengur í dag til þess að sjá hverju skimanirnar í dag skila,“ segir Þórólfur.

mbl.is

Bloggað um fréttina