Ný lög eigi ekki að hafa áhrif á mál í vinnslu

Ólafur Þór Hauksson héraðssaksóknari.
Ólafur Þór Hauksson héraðssaksóknari. mbl.is/Árni Sæberg

Ólafur Þór Hauksson héraðssaksóknari leggst gegn því að skattalagabreyting, sem nú er unnið að, muni hafa áhrif á mál sem þegar eru í vinnslu annaðhvort hjá dómstólum eða hjá saksóknara.

Lagafrumvarpinu, sem kemur frá fjármálaráðherra, er ætlað að girða fyrir tvöfalda refsingu við rannsókn og saksókn vegna skattalagabrota. Mannréttindadómstóll Evrópu hefur dæmt slíka tvöfalda refsingu óheimila.

Lögmannsstofan Logos og endurskoðendurnir KPMG og PwC tala fyrir því í umsögnum sínum við frumvarpið að ástæða geti verið til að fella niður mál sem þegar eru til skoðunar á grundvelli núgildandi skattalaga. Þessu mótmælir héraðssaksóknari í umsögn við frumvarpið.

„Héraðssaksóknari telur [...] ekki rétt að Alþingi hlutist til um með lagasetningunni að raska grundvelli þeirra mála sem nú eru til meðferðar þar sem hann telur meðferð þeirra ekki ganga í berhöggi [sic] við dóma MDE. 

Auk þess að hafa neikvæð áhrif á fyrirsjáanleika refsimála þá gæti slík breyting einnig vakið upp álitaefni varðandi endurupptöku allra þeirra skattamála sem dómur hefur verið lagður á hér á landi eftir dóm MDE með ófyrirséðum afleiðingum,“ skrifar saksóknari.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert