Starfsfólkið skimað tvisvar

Mikið álag hefur verið á Landspítalanum síðasta árið vegna kórónuveirunnar.
Mikið álag hefur verið á Landspítalanum síðasta árið vegna kórónuveirunnar. Ljósmynd/Þorkell Þorkelsson

Enn hefur ekkert smit greinst á meðal starfsfólks göngudeildar lyflækninga á Landspítala en allt starfsfólkið mun undirgangast tvær skimanir vegna smits sem kom upp hjá einum starfsmanni deildarinnar um síðastliðna helgi.

Þetta segir Már Kristjánsson, yfirlæknir smitsjúkdómadeildar Landspítala, í samtali við mbl.is.

Aðspurður segir Már að þetta sé mikill léttir en starfsfólkið þarf að vera í sóttkví á milli skimana. Um helmingur starfsfólksins er bólusettur og er það fólk því í sóttkví C og getur starfað á spítalanum. Óbólusetta starfsfólkið sætir sinni sóttkví heima. 

Már segir aðspurður að óhjákvæmilega komi það niður á starfsemi deildarinnar. 

2.500 starfsmenn bólusettir í vikunni

Bólusetja á 2.500 starfsmenn Landspítala í vikunni, að sögn Más. Að því loknu hafa um 5.000 starfsmenn spítalans fengið bólusetningu. „Það er þorri klínískra starfsmanna,“ segir Már.

Fyrstu skimun starfsfólksins lauk í gær en áfram verður skimað fyrir veirunni á meðal tónleikagesta í Hörpu sem sóttu sömu tónleika og smitaði starfsmaðurinn síðastliðið föstudagskvöld. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert