Hvað mun eldgosið heita?

Eldgosið í Holuhrauni stóð lengi og glóandi elfurin flæmdist um …
Eldgosið í Holuhrauni stóð lengi og glóandi elfurin flæmdist um stórt svæði. Áður en gosið varð hét hraunið Holuhraun. Og eftir gosið fékk nýtt hraun nafnið Holuhraun. mbl.is/RAX

Þegar ljóst varð að töluverðar líkur væru á eldgosi á Reykjanesskaga á dögunum hófu netverjar að setja saman kenningar um það við hvað gosið yrði kennt. 

Vinsæl hugmynd var að tala um gos í „Sundhnjúkagígaröð í Þráinsskjaldarhrauni“ en ætla má að hún hafi einkum höfðað til útlendinga, sem fögnuðu því að Eyjafjallajökull hefði mætt ofjarli sínum í framburðarörðugleikum.

Einar Sveinbjörnsson, veðurfræðingur og varaformaður örnefnanefndar, segir í samtali við mbl.is að Sundhnjúkagígaröð í Þráinsskjaldarhrauni yrði í öllu falli ólíklega fyrir valinu.

Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur.
Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur. mbl.is/Sigurður Bogi

Fjölmiðlar í skotfæri

Í fyrsta lagi hefur líklegur gosstaður færst töluvert til frá því að sá titill var lagður til, hann er kominn sunnar, og í öðru lagi segir Einar að borin von sé að ákveða við hvað gos er kennt áður en það hefst.

„Ef það byrjar að gjósa á tilteknum stað er það yfirleitt bara í tali manna á milli, vísindamanna og fjölmiðla, sem eitthvert heiti verður til og festist við. Það eru aðilarnir sem eru í ákveðnu skotfæri að gefa hlutum nafn sem öðlast síðan einhvern sess,“ segir Einar.

Þar hjálpar að heitið sé annaðhvort snjallt í einhverjum skilningi eða einfaldlega viðeigandi fyrir staðinn. Nú er talið að kvikan sé sunnarlega við Fagradalsfjall, þannig að ef gos hefst getur kvikan bæði komið úr fjallinu sjálfu eða aðeins sunnan þess. Ef hið fyrrnefnda á sér stað er ekki ólíklegt að gosið verði kennt við fjallið sjálft en ef ekki væri það að mati Einars undarlegt.

Hugsanlegur gosstaður er við eða á Fagradalsfjalli á Reykjanesskaga.
Hugsanlegur gosstaður er við eða á Fagradalsfjalli á Reykjanesskaga. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Holuhraun varð Holuhraun

Annað mál er hraunið sem verður til eftir gosið. Hraunið yfir líklegum gosstað núna heitir Borgarhraun, sem hefur heitið svo í hundruð ára og er mun eldra en elstu menn muna. Þegar gaus norðan Dyngjujökuls árið 2014 varð gosið í hrauninu Holuhrauni og nýja hraunið hlaut sama nafn, Holuhraun.

„Það kemur auðvitað mjög margt til greina ef það kemur upp gos hérna, bæði hvað varðar hraunið og ef það verða til gígar,“ segir Einar. Niðurstaðan sé oft harla tilviljanakennd, eins og sjá má af hraunum í grenndinni sem ekki blasir við við fyrstu sýn hvernig eru til komin.

Borgarhraun gæti á sama hátt og Holuhraun haldið nafni sínu en Einar segir það líka í höndum íbúa á svæðinu, í þessu tilfelli sveitarfélagsins Grindavíkur, að meta í hvaða átt þau mál þróast.

mbl.is