22% telja MAX-vélarnar óöruggari en aðrar

AFP

Nær helmingur Íslendinga (45%) telur það eins öruggt eða öruggara að ferðast með Boeing 737 MAX-flugvélum og öðrum farþegaþotum en 22% telja það óöruggara. Þriðjungur aðspurðra kvaðst ekki hafa mótað sér afstöðu.

Þetta kemur fram í nýrri könnun MMR á skoðun landsmanna á öryggi þess að ferðast með vélunum. 

Þar kemur einnig fram, að karlar (54%) hafi reynst líklegri heldur en konur (35%) til að segjast telja það eins öruggt eða öruggara að ferðast með Boeing 737 MAX-vélunum en öðrum farþegaþotum.

Þeir svarendur sem kváðust að jafnaði hafa ferðast utan fimm sinnum á ári eða oftar áður en kórónuveirufaraldurinn skall á reyndust líklegastir til að segjast telja ferðir með Boeing 737 MAX-flugvélunum jafn öruggar eða öruggari en með öðrum farþegaþotum (56%). Traust til Boeing 737 MAX-vélanna minnkaði samhliða minni fjölda ferða utan og mældist lægst meðal þeirra svarenda sem kváðust að jafnaði ekki hafa ferðast utan á hverju ári (34%), að því er MMR greinir frá. 

Stuðningsfólk Miðflokksins (56%), Sjálfstæðisflokksins (53%) og Framsóknar (52%) reyndist líklegast til að segjast telja ferðalög með Boeing 737 MAX-flugvélum eins örugg eða öruggari en ferðalög með öðrum farþegaþotum en stuðningsfólk Pírata (35%), Samfylkingarinnar (41%) og Flokks fólksins (44%) ólíklegast, segir enn fremur. 

Könnunin var framkvæmd dagana 30. desember 2020 til 11. janúar 2021 og var heildarfjöldi svarenda 2.002 einstaklingar, 18 ára og eldri.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert