Fara yfir netskilaboð og öryggismyndavélar

Albanskur maður var myrtur á heimili sínu í Rauðagerði um …
Albanskur maður var myrtur á heimili sínu í Rauðagerði um miðjan febrúar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu telur sig vera með alla þá í haldi sem tengjast Rauðagerðismálinu á einn eða annan hátt, þar á meðal þann sem skaut Armando Bequiri á heimili hans í febrúar.

Þetta eru samtals níu menn. Fjórir þeirra eru í gæsluvarðhaldi en fimm í farbanni.

Margeir Sveinsson, sem er yfir miðlægri rannsóknardeild lögreglunnar, segir að ásamt því sem yfirheyrslur standi enn yfir sé verið að vinna úr hvers konar tölvugögnum, meðal annars netskilaboðum á milli grunaðra.

Margeir Sveinsson yfirlögregluþjónn.
Margeir Sveinsson yfirlögregluþjónn. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Einnig er verið að fara yfir upptökur úr öryggismyndavélum og annars konar símagögn.

Veit ekki hvenær lögreglan skilar málinu frá sér

Margeir segist ekki geta sagt hvenær lögreglan skilar málinu af sér en heilt yfir miði rannsókn mjög vel miðað við umfang.

Steinbergur Finnbogason, verjandi eina Íslendingsins sem er sakborningur í málinu, sagði í samtali við mbl.is ótækt að lögreglan hefði farið fram á að skipun hans sem verjanda yrði afturkölluð, þar sem kalla þyrfti hann, lögmanninn, til skýrslutöku.

Steinbergur sagði að ekkert í vitneskju hans gæti komið að gagni við vinnslu málsins. Spurður hvort hann sé á öðru máli, segir Margeir að sú staðreynd að lögregla hafi lagt þessa kröfu fram svari þeirri spurningu.

Steinbergur áfrýjaði ákvörðun Héraðsdóms Reykjavíkur um afturköllun skipunar hans sem verjanda til Landsréttar og er þar með tæknilega enn þá verjandi Íslendingsins, þ.e. á meðan Landsréttur hefur ekki einnig staðfest kröfu lögreglu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert