Gera þarf ráð fyrir gosi

Öskuspá. Ratsjáin á að greina gosefni í lofti.
Öskuspá. Ratsjáin á að greina gosefni í lofti. mbl.is/Sigurður Bogi

Kvikugangurinn sem nær frá Keili að Fagradalsfjalli heldur áfram að stækka og er mesta kvikuflæðið sem fyrr bundið við suðurenda hans sem liggur undir og nærri Fagradalsfjalli. Á meðan kvika heldur áfram að flæða inn ganginn þarf að reikna með að það geti gosið á svæðinu.

Þetta var niðurstaða fundar vísindaráðs almannavarna sem haldinn var í gær. Ályktað var að eftir því sem núverandi ástand standi lengur yfir aukist líkur á gosi. Litlar líkur eru taldar á að slíkt gos myndi ná til byggða. Jarðvísindamenn tóku fram í gær að mikilvægt væri að fylgjast náið með virkninni í suðurhlíðum Fagradalsfjalls til að sjá hvort kvikugangurinn sé að stækka í suður.

Ef gangurinn heldur áfram að stækka og valda spennu á svæðinu má áfram eiga von á skjálftum sem finnast í byggð, sambærilegum þeim sem orðið hafa síðustu sólarhringa. Grunnt er nú talið vera niður á kvikuna og þykir hún líklega vera á um eins kílómetra dýpi syðst í ganginum.

Ratsjá sem greinir gosefni í lofti hefur verið sett upp á vegum Veðurstofu Íslands við Reykjanesbraut, á Strandarheiði rétt fyrir sunnan Kúagerði. Gögn sem með þessu móti er aflað nýtast til að spá fyrir um dreifingu ösku á helstu flugleiðum yfir Norður-Atlantshafinu, komi til eldgoss. Hve hátt gosmökkur nær er afgerandi áhrifaþáttur í því sambandi, en eigi að síður er þarft að fylgjast með hvernig aska og gas berast næst jörðu.

Yfir 2.400 skjálftar höfðu mælst þegar Morgunblaðið fór í prentun í gær, sem þykir í hærra lagi. Upp úr klukkan 19 í gærkvöldi jókst skjálftavirkni rétt eins og á sama tíma á þriðjudag. Riðu þá yfir fleiri skjálftar yfir þremur að stærð. Sá stærsti þeirra mældist 3,8 stig.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert