Sveitarfélög segjast neydd til hópuppsagna

Vestmannaeyjar og Fjarðabyggð telja sig neydd til hópuppsagna en Heilbrigðisráðuneytið …
Vestmannaeyjar og Fjarðabyggð telja sig neydd til hópuppsagna en Heilbrigðisráðuneytið vísar því á bug. mbl.is/Sigurður Bogi

Bæjarráð Vestmannaeyjabæjar og Fjarðabyggðar lýsa því yfir í fréttatilkynningu að sveitarfélögin séu neydd til þess að segja upp starfsfólki hjúkrunarheimila. Bæði vilja fresta uppsögnum sínum á samningum um rekstur hjúkrunarheimila við Sjúkratryggingar Íslands um einn mánuð, til 1. maí næstkomandi. 

Fullyrt er í tilkynningu þeirra að ekki sé ljóst hvort vilji sé til þess að tryggja starfsöryggi starfsmanna hjúkrunarheimilanna í Fjarðabyggð og Vestmannaeyjum, þar sem til stendur að færa reksturinn undir Heilbrigðisstofnun Austurlands og Heilbrigðisstofnun Suðurlands.

Heilbrigðisráðuneytið segir að um rangfærslur sé að ræða

Heilbrigðisráðuneytið segir yfirlýsingu sveitarfélaganna fela í sér rangfærslur sem ráðuneytið sjái sig knúið til að leiðrétta, í tilkynningu á vef stjórnarráðsins. Í kjölfar uppsagna sveitarfélaganna hafi verið ákveðið að heilbrigðisstofnanir í viðkomandi umdæmum tækju að sér reksturinn en áður hafi SÍ auglýst eftir aðilum til þess að taka við rekstri heimilanna. Engin viðbrögð hefðu borist við þeirri auglýsingu.

„Bæjarstjórarnir segjast neyddir til að grípa til hópuppsagna starfsfólks viðkomandi hjúkrunarheimila, af því að heilbrigðisráðherra sé ekki reiðubúinn að láta lög nr. 72/2002 um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum gilda. Nú er það svo að umrædd lög gilda, eins og nafn þeirra gefur til kynna, eingöngu um aðilaskipti að fyrirtækjum,“ segir í tilkynningu ráðuneytisins.

Tilraunir til þess að fá fjárveitingar sagðar árangurslausar

Ráðuneytið svarar ekki þeim hluta yfirlýsingar bæjaryfirvaldanna, þar sem ráðuneytið er gagnrýnt fyrir að hafa ekki veitt starfseminni nægilegt fjármagn:

„Þar sem tilraunir til þess að fá nægilegar fjárveitingar til reksturs heimilanna hafa verið árangurslausar gripu sveitarfélögin til þess örþrifaráðs að segja upp samningum við Sjúkratryggingar Íslands, skv. uppsagnarákvæðum samninganna og skila þannig rekstrinum aftur til ríkisins,“ segir í fréttatilkynningunni, sem undirrituð er af Jóni Birni Hákonarsyni, bæjarstjóra Fjarðabyggðar, og Írisi Róbertsdóttur, bæjarstjóra Vestmannaeyja.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert