„Ekki eins og við séum að hætta að nota þetta“

Þórólfur Guðnason
Þórólfur Guðnason Ljósmynd/Almannavarnir

„Auðvitað er þetta óþægileg staða fyrir þá sem átti að bólusetja en ég held að það hefði líka verið óþægileg staða að bólusetja og ekki getað svarað þessum grundvallarspurningum.“ Þetta segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir í samtali við mbl.is um áhrif tímabundinnar stöðvunar á bólusetningum með bóluefni frá AstraZeneca.

Þórólfur greindi frá þeirri ákvörðun á upplýsingafundi Almannavarna í gær og var hún tekin í ljósi tilkynninga um mögulegar, alvarlegar aukaverkanir í Danmörku. Ein tilkynning varðaði andlát og að minnsta kosti ein blóðtappa.

Þrjár tilkynningar um blóðtappa hér á landi

Lyfjastofnun hefur borist þrjár tilkynningar um blóðtappa eftir bólusetningu, en viðkomandi einstaklingar voru allir bólusettir, hver með sínu bóluefni. Þórólfur segir að það séu aðallega starfsmenn Landspítala sem þurfa að bíða lengur eftir bólusetningu á meðan ekki er bólusett með efninu frá AstraZeneca.

Um forsendurnar fyrir ákvörðuninni um tímabundna stöðvun segir hann að fréttirnar frá Danmörku hafi verið tilefni til að skoða stöðuna hér á landi frekar. Hann telur ákvörðunina forsvaranlega þó svo að einhverjir þurfi að bíða lengur eftir bólusetningu.

„Við vildum gera það í ljósi þessara frétta meðan við vorum að athuga og fá betri vitneskju um þessar upplýsingar. Og við ætluðum að kanna hver tíðnin er hér – bæði grunntíðnin í samfélaginu á þessu vandamáli og með hliðsjón af þessum tilkynningum til Lyfjastofnunar,“ segir Þórólfur og bætir við:

„Við erum að tala kannski um nokkra daga bara. Það er ekki eins og við séum að hætta nota þetta. Við erum rétt að stoppa meðan við erum að átta okkur á þessu.“

Liggi mögulega fyrir í byrjun næstu viku

Hann áætlar að áðurnefnd skoðun á grunntíðni blóðtappa hér á landi með hliðsjón af tilkynningum til Lyfjastofnunar taki nokkra daga og ætti að liggja nokkurn veginn fyrir eftir helgi. Lyfjastofnun Evrópu telur sig þó þurfa alla næstu viku til að kanna möguleg tengsl milli bólusetninga og blóðtappa.

Fréttir af mögulegum aukaverkunum eftir bólusetningar með bóluefni AstraZeneca voru ekki einu fréttirnar tengdar bóluefnum sem bárust í gær heldur var einnig greint frá því að bóluefni belgíska lyfjafyrirtækisins Janssen, sem er í eigu Johnson & Johnson, hefði fengið skilyrt markaðsleyfi hér á landi.

Það er það bóluefni sem íslensk stjórnvöld hafa tryggt sér hvað hlutfallslega mest af. Ekki er þó ljóst hvenær fyrstu skammtarnir af því berast til landsins eða í hvaða magni.

„Það er stóra spurningin. Nú er bara búið að samþykkja það en við höfum ekki fengið neina dreifingaráætlun frá þeim,“ segir Þórólfur. Það veltur því á hvað fyrirtækið treystir sér til að framleiða mikið af efninu á næstunni og hvernig það ætlar sér að dreifa því.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert