Vínbúð opnuð í Mývatnssveit

Frá Reykjahlíð í Skútustaðahreppi
Frá Reykjahlíð í Skútustaðahreppi Ljósmynd/Wikipedia

Sveitarstjórn Skútustaðahrepps heimilaði á fundi sínum í vikunni opnun vínbúðar ÁTVR í Reykjahlíð í Mývatnssveit. Sveinn Margeirsson sveitarstjóri segir þetta gleðitíðindi fyrir íbúa svæðisins og sömuleiðis atvinnuskapandi.

Versluninni hefur verið fundið húsnæði í miðbæ Reykjahlíðar, þar sem framkvæmdir hefjast von bráðar. Gera má ráð fyrir að verslunin verði opnuð fyrir sumarið og þar með geta Mývetningar sparað sér ferð á Húsavík til þessara innkaupa.

„Það er um að gera að auka möguleika fólks á að kaupa það sem það langar í á staðnum, að sjálfsögðu innan lagarammans. Við lítum þetta jákvæðum augum og það er samhljómur um það, þó að einnig þurfi auðvitað að gæta að lýðheilsumálum í þessu,“ segir Sveinn í samtali við mbl.is.

„Þetta eru góðar fréttir, það er engin spurning, og skapar aukna atvinnu, þó að hún sé ekki stórkostleg. En það vegur allt í þessari stöðu,“ segir Sveinn. Hann gerir einnig ráð fyrir að ferðamenn muni gleðjast yfir þessu þegar þar að kemur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert