Kristján Þór fer ekki fram

Kristján Þór Júlíusson.
Kristján Þór Júlíusson. mbl.is/Árni Sæberg

Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hyggst ekki leita endurkjörs í alþingiskosningunum, sem fram fara í haust. Þetta kemur fram í ítarlegu viðtali við Kristján Þór í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.

Hann segist hafa tekið ákvörðunina að vel ígrunduðu máli. „Ég hef hugsað þetta og búinn að gera það upp við mig, að þetta sé orðið gott eftir 35 ára þjónustu í stjórnmálum og ætla því ekki að leita endurkjörs í haust,“ segir Kristján Þór í viðtalinu.

Hann segist þó ekki ætla að draga sig alfarið í hlé frá stjórnmálum, hann verði áfram virkur í starfi Sjálfstæðisflokksins þótt hann verði ekki í flokksforystunni að þessu kjörtímabili loknu.

Kristján Þór á að baki 35 ára farsælan feril í stjórnmálum, sem hófst þegar hann var ráðinn bæjarstjóri á Dalvík árið 1986, þá 29 ára gamall sjómaður og kennari. Síðar varð hann bæjarstjóri á Ísafirði og síðan Akureyri, þar til hann var kjörinn á Alþingi 2007, og endurkjörinn síðan. Hann varð ráðherra 2013 og hefur setið í öllum ríkisstjórnum síðan, fyrst heilbrigðisráðherra, þá mennta- og menningarmálaráðherra og loks sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert