Hefur hrunið úr Festarfjalli

Jón Steinar Sæmundsson hefur með hjálp dróna tekið upp myndband sem sýnir vel aðstæður í Festarfalli en hrunið hefur úr fjallinu í kjölfar jarðskjálfta síðustu vikna. 

Jón Steinar sagðist ekki hafa frétt af hruninu heldur fór hann að athuga með svæðið „því þetta er þannig staður að hrun er mjög líklegt í svona látum þar sem þetta er móberg og frekar laust í sér og þolir því frekar illa svona læti.“

Með látum á Jón Steinar við jarðskjálftana sem dunið hafa yfir síðustu vikurnar.

Jón Steinar segir að áður hafi hrunið úr fjallinu. „Síðustu vikur og síðan jarðskjálftarnir byrjuðu þá hefur þetta verið að hrynja hérna.“

Skjáskot úr myndskeiðinu.
Skjáskot úr myndskeiðinu.

Jón Steinar, sem er íbúi í Grindavík, fann eins og svo margir aðrir Grindvíkingar, fyrir stóra skjálftanum kl 14:15 í dag.

„Aldrei fundið svona kröftugan skjálfta hérna, hvorki fyrr né síðar,“ sagði Jón Steinar um skjálftann.

Jón Steinar sagði skjálftann hafa verið mjög óþægilegan og bætti við, „ég held það geti ekki neinum fundist þetta notalegt.“

mbl.is