Vinnur eins og rannsóknarlögregla

„Ég held að það væri gaman að fá lítið meinlaust …
„Ég held að það væri gaman að fá lítið meinlaust gos. Fólk er spennt fyrir því og þá hætta kannski jarðskjálftarnir,“ segir Kristín Jónsdóttir, doktor í jarðeðlisfræði. mbl.is/Ásdís

Móðir náttúra er óútreiknanleg og þá er gott að eiga sérfræðinga til að rýna í jörðina, pota og mæla, og upplýsa okkur hin um gang mála. Kristín Jónsdóttir, eldfjalla- og jarðskjálftafræðingur með meiru, er mætt í viðtal, afslöppuð og glaðleg. Hún er orðin sjóuð í fjölmiðlum því síðustu daga og vikur hefur hún sést daglega á skjáum landsmanna og er álíka vösk og traustvekjandi og þríeykið. Hún svarar erfiðum spurningum fréttamanna fumlaust, þótt ekki finnist alltaf svör, því enn ríkir mikil óvissa og ekki hægt að segja með vissu hvort fari að gjósa eða hvenær jarðskjálftahrinan hættir.

Kristín leggur símann á borðið og afsakar að geta ekki slökkt á honum; hún þurfi jú að vera til taks ef jörð opnast. Kristín segir þetta annasama en spennandi tíma og vissulega sé óvissan mikil.

„Maður er svolítið að vinna eins og rannsóknarlögregla; að taka allar þessar vísbendingar, púsla þeim saman og reyna skilja hvað sé að gerast. Svo kemur alltaf eitthvað nýtt upp á,“ segir Kristín og brosir.

En áður en við snúum okkar að gosóróa, óróapúlsi og gikkskjálftum tölum við um upprunann, æskuna, tónlistina, ástina, námið og spennandi rannsóknarvinnu víða um heim.

Fiðluleikari eða vísindamaður?

Kristín er fædd í Reykjavík árið 1973, barn kennaranna Ingibjargar Júlíusdóttur og Jóns Kr. Hansen.

„Ég er Breiðhyltingur í húð og hár,“ segir Kristín.

Varstu brjálaður unglingur í Breiðholti?

„Nei. Mig langar að segja já, en nei,“ segir Kristín og skellihlær.

„Ég er elst af þremur systrum og kannski er eitthvert kennaragen í mér, því mér gengur vel að útskýra flókið efni. Ég hef alltaf verið að stýra og stjórna,“ segir hún kímin.
Fimmtán ára gömul hélt Kristín á vit ævintýranna til Kanada þar sem hún var skiptinemi í eitt ár. Eftir heimkomuna fór hún í Menntaskólann við Hamrahlíð og stundaði ávallt tónlistarnám samhliða náminu.

„Ég var alltaf í músík og lærði á fiðlu. Ég var í tónlistarskóla og í MH var ég á tónlistarbraut og eðlisfræðibraut. Mér fannst bæði skemmtilegt og ég vissi ekki hvort ég vildi verða tónlistarmaður eða vísindamaður. Einhvern tímann mætti ég óæfð í fiðlutíma og kennarinn var frekar pirraður og sagði að ég yrði að fara að ákveða mig, hvort ég ætlaði að leggja fyrir mig tónlist eða ekki. Þá ákvað ég að verða ekki fiðluleikari,“ segir hún og brosir.
Kristín segir foreldra sína hafa verið duglega að fara með dæturnar þrjár út í náttúruna og upplýsa þær og fræða um jarðfræði.

„Ég held að áhugi á jarðvísindum hafi einhvern veginn laumast inn. Mamma og pabbi voru dugleg að fara með okkur út að ganga og við ferðuðumst um Ísland á sumrin. Mamma hafði líka verið leiðsögumaður og kunni heilmikla jarðfræði þannig að þetta síaðist inn,“ segir Kristín og segist hafa valið jarðeðlisfræði í háskóla eftir að hafa rekist á kunningja sinn sem ætlaði í það fag.

„Hann sagði mér að hann ætlaði nefnilega að finna olíu og verða ríkur. Ég hugsaði, jarðfræði, eðlisfræði, að verða rík? Hljómar vel!“ segir Kristín og hlær.

„Þannig að ég hoppaði á þann vagn án þess að vita í raun út í hvað ég væri að fara,“ segir hún og segir að sem ríkisstarfsmaður hafi það tæplega ræst að verða rík, en það skipti ekki öllu.
„Mér finnst ég hafa fundið mína fjöl. Ég hef ástríðu fyrir því sem ég er að gera og það skiptir máli.“

Fékk símtal frá Dr. Gunna

Nú veit alþjóð að þú varst í hljómsveitinni Unun, hvernig kom það til?

Kristín hlær dátt.
„Ég var alltaf í Hamrahlíðarkórnum, alveg í tíu ár. Það var æðislegur skóli að vera í kórnum hjá Þorgerði og við ferðuðumst um allan heim,“ segir hún.

„Svo vorum við nokkur eitt sinn að búa til hljómsveit fyrir sönglagakeppni í MH. Þá voru Dr. Gunni og Þór Eldon í dómnefndinni. Þeir komu til mín á eftir og spurðu mig hvort ég vildi vera með í nýju hljómsveitinni þeirra, sem var þá nafnlaus. Ég var einhverja mánuði að æfa lögin og að leika mér með þeim en nafnið Unun kom svo síðar,“ segir Kristín sem átti að vera aðalsöngkona hljómsveitarinnar.

„Upptökurnar gengu kannski ekki nógu vel og þeir vildu fá annars konar söngkonu. Í millitíðinni heyrðu þeir í Heiðu og sáu þá að hún myndi passa betur.“

Varstu þá rekin úr hljómsveitinni?

„Já, ég var rekin úr hljómsveitinni. Ég fékk símtal frá Dr. Gunna. Ég hélt ég væri á leið í upptökur, en var samt á sama tíma búin að skrá mig í jarðeðlisfræðina. Ég var ekki það ákveðin í að verða poppstjarna að ég ætlaði að bregða út af því plani að fara í jarðeðlisfræðina. Það var alltaf mín stefna.“

En varst spæld?

„Já, auðvitað. Þetta var mikil höfnun,“ segir hún og brosir að þessari gömlu minningu.

Þrír synir í þremur löndum

Kristín hélt ótrauð upp í Háskóla Íslands þar sem hún kláraði jarðeðlisfræðina og fékk svo vinnu á Veðurstofunni. Þar lágu leiðir þeirra Pálma Erlendssonar saman, en hann er jarðfræðingur og sjálfmenntaður tæknimaður og vinnur í dag hjá Neyðarlínunni. Ástin kviknaði, enda áttu þau margt sameiginlegt; bæði jarðfræðina og tónlist, en Pálmi lærði gítarleik og er liðtækur á fjölmörg hljóðfæri. Í dag eiga þau þrjá syni á aldrinum níu til tvítugs og fyrir átti Pálmi eina dóttur.

Hjónin fluttu til Svíþjóðar, þá með einn son, og bjuggu þar í sjö ár. Þar fæddist þeim annar sonur.

„Ég fór í fimm ára doktorsnám og fór svo að vinna þar og átti þar líka barn. Ég hef eignast eitt barn í hverju landi sem ég hef búið í; eitt á Íslandi, eitt í Svíþjóð og eitt í Austurríki.“
Doktorsritgerð Kristínar fjallaði um jarðskjálftavirkni og lágtíðniskjálfta í Kötlu.

Kristín bjó í Svíþjóð þar sem hún var í fimm …
Kristín bjó í Svíþjóð þar sem hún var í fimm ára doktorsnámi og síðar í rannsóknarvinnu. Þaðan lá leiðin til Austurríkis. mbl.is/Ásdís

Eftir námið í Svíþjóð fór Kristín að vinna fyrir sænska jarðskjálftamælinganetið og segir að þegar þeirri vinnu lauk hafi hjónin ekki langað heim alveg strax, enda hrunið í algleymingi. 

„Maðurinn minn fékk þá frábæra vinnu í Vín, hjá stofnun sem tilheyrir Sameinuðu þjóðunum og fylgist með kjarnorkuvopnatilraunum. Það er gert með jarðskjálftamælum sem eru staðsettir úti um allan heim og hann fékk því að ferðast mikið. Hann vann við að halda mælunum gangandi, en við notum jarðskjálftamæla og fleira til að hlusta eftir því hvort einhver hafi verið að sprengja,“ segir hún.

„Þetta er mjög mikilvægt eftirlit því um leið og þessu var komið á, hættu flestir að prófa og þróa kjarnorkuvopn,“ segir Kristín sem sat ekki auðum höndum í Vínarborg en þar bjó fjölskyldan í tæp fjögur ár. Hún stundaði sína rannsóknarvinnu og þar kom einnig þriðji sonurinn í heiminn.

„Á þessum tíma fékk ég nýdoktorastyrk í Dublin og flaug stundum á milli landanna og fór einnig til Úganda vegna rannsókna,“ segir hún og segir að þá hafi gos á Íslandi haft áhrif á hennar plön.
„Það var frekar fyndið að við bjuggum í Austurríki þegar Eyjafjallajökull gaus og fluginu mínu til Úganda var ítrekað frestað vegna gossins.“

Rannsakar óróa á Íslandi

Eftir heimkomuna frá Vín árið 2013 fékk Kristín stöðu á Veðurstofunni sem eldfjalla- og jarðskjálftafræðingur og starfar hún einnig sem hópstjóri í náttúruváreftirliti.

„Ég er yfir hópi sem tekur náttúruvárvaktir með veðurfræðingum. Þar er fylgst með alls kyns náttúruvá, meðal annars jarðskjálftavirkni og vatnsföllum og svo gera þau ýmislegt annað, eins og að lesa í útvarpi og framkvæma veðurathuganir. Við nýtum starfsmennina mjög vel,“ segir hún og brosir.

Kristín er einnig í vísindaráði Almannavarna.
„Veðurstofan hefur það hlutverk að vara við og miðla upplýsingum um náttúruvá og þá er eðlilegt að ég taki þátt í því starfi. Þar kemur mín sérþekking inn,“ segir Kristín sem hefur sjaldan haft meira að gera en nú.

„Svo er ég líka að leiða rannsóknarverkefni en ég fékk styrk fyrir þremur árum fyrir verkefni sem heitir IS-noise. Það er Evrópuverkefni sem ég vinn með innlendum og erlendum vísindamönnum og þar erum við að horfa fram á veginn og nýta nýjustu aðferðafræði til að bæta náttúruvárvöktun á Íslandi. Við erum að kanna aðferð til að fylgjast með eldfjöllum og skoða forboða jarðskjálfta og fleira,“ segir hún.

„Ég var líka að fá 110 milljóna króna styrk frá Rannís núna í janúar til að leiða öndvegisverkefni sem hefst í vor og mun standa yfir í þrjú ár. Við ætlum að rannsaka óróa á Íslandi og þróa aðferðir til að greina, staðsetja, flokka og skrá jarðskjálftaóróa. Það hefur engum fjölmiðli tekist að grafa þetta upp núna síðustu daga varðandi mig; fókusinn hefur verið á hvar gleraugun mín voru keypt eða hvaða hljómsveit ég var í fyrir 25 árum,“ segir hún og hlær.

Einstakar jarðhræringar

Það er ekki hægt að sitja á móti helsta eldfjalla- og jarðskjálftafræðingi landsins án þess að forvitnast um hvað sé í gangi á Reykjanesinu. 

„Þarna var mikil goshrina sem gekk yfir á 9. til 13. öld en þarna eru líka mörg hraun sem eru mikið eldri,“ segir hún.
„Mestu skiptir að átta sig á hvar kvika kemur upp og hvar ekki,“ segir hún og segir þessar jarðhræringar sem nú ganga yfir alveg einstakar í sögunni.

„Við þekkjum ekki jarðskjálftasöguna mjög langt aftur en þetta virðist vera einstakt. Við þurfum að leita mjög langt aftur til að sjá eldgos í Fagradalsfjalli. Hraunin þar eru mörg þúsund ára gömul. Þetta var kannski ekki staðurinn sem fólk bjóst við að færi að gjósa á,“ segir hún.

Gasmengun til Reykjavíkur

Hvað með eiturgas?

„Já, ef það verður eldgos þá verður mikil gasmengun nálægt upptökunum og því ekki ráðlagt að vera þar. Nýjustu upplýsingar benda þó til þess að þetta verði ekki jafn slæmt og við héldum fyrst. En í vissum vindáttum kæmi gasmengun til byggðarinnar í grennd og til Reykjavíkur, sem gæti verið óþægilegt fyrir fólk með undirliggjandi lungnasjúkdóma. Það gætu alveg komið dagar þar sem gasmengunin yrði óþægileg fyrir alla. Veðurstofan mun gefa út gasspá daglega, samhliða veðurfréttum,“ segir Kristín og segir Almannavarnir skoða að setja upp útsýnispall fyrir almenning þar sem hægt væri að tryggja öryggi allra, en ljóst er að eldgos á Reykjanesskaga mun laða að fólk.

„En auðvitað eru eldgos hættuleg.“

Fallegur bjarmi betri en skjálftar

Nú hafa dagarnir hjá þér verið viðburðaríkir undanfarnar vikur. En ertu búin að læra eitthvað nýtt?
„Já, rosalega margt! Þetta er kallað sniðreksbelti sem gengur í gegnum Reykjanesskagann og ég hef lært að skilja tímalínuna í atburðum og stærðina á þessum merkjum. Við erum líka alltaf að samtúlka gögnin og höfum séð mjög margt merkilegt, eins og áhugaverðar gasmælingar og samtúlkun á jarðskjálftagögnum og líkönum af kvikugangi. Gikkskjálftar er kannski nýja orðið í vikunni,“ segir hún og hlær.

Langar þig að fá gos?

Kristín hugsar sig um. Hún veit ekki hvort það sé „rétt“ af vísindamanni að segjast vilja gos. En hún lætur vaða.

„Ég held að það væri gaman að fá lítið meinlaust gos, já. Fólk er spennt fyrir því og þá hætta kannski jarðskjálftarnir. Við fáum þá í staðinn fallegan bjarma yfir Reykjanesskaganum, er það ekki bara skemmtilegt?“

Jú, það finnst blaðamanni.

Mikið vísindaspjall í gangi

Síminn pípir og hringir hjá Kristínu en gos er ekki hafið, að minnsta kosti ekki áður en blaðið fór í prentun! Aðrir fjölmiðlar vilja líka ná tali af Kristínu og degi tekið að halla. Það er kominn tími til að slá botninn í skemmtilegt og fræðandi samtal. Kristín þarf líka að fara heim í kvöldmat með fjölskyldunni áður en hún mætir í fréttatíma um kvöldið til að svara spurningunni sem allir vilja fá svar við: „Verður gos?“

Er mikið talað um vísindi á þínu heimili?

Kristín þarf ekki að hugsa sig lengi um og svarar hlæjandi: „Já! Það er rosamikið talað um eldfjöll og jarðskjálfta. Líka um geimskot og ferðir til tunglsins og Mars. Það er mikið vísindaspjall í gangi heima hjá mér.“

Lesa má viðtalið í heild sinni hér á mbl.is í vefútgáfu Morgunblaðsins.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.185 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »